11. ZACK

Spennusaga með eins orðs titli eftir tvo höfunda. Sem minnir mig á að bók eftir tvo höfunda ætti að vera á hverjum svona lesáskorunarlista en það er nú útúrdúr. 

Zack er enn einn glæpareyfarinn sem ég gleypi í mig milli lesturs á  sagnfræðiskáldverkanna á leslista komandi vorannar og eins og fyrri daginn sæki ég í Skandinavísku glæpasöguna. Þessi gerist í Svíþjóð, höfundarnir Nons Kallentoft og Markus Lutteman eru báðir sænskir og bókin er fyrsta bók í Herkúlesarseríunni, segir á bókarkápu. 

Eftir lesturinn á þessum fyrsta hluta í seríu á ég ekki eftir að leita framhaldshlutana uppi. Sagan olli mér vonbrigðum,  höfundarnir sækja í bandarísku hasareltingarleikina og hryllingspyntingarlýsingar svipaðar þeim sem eru alls ráðandi í glæpaþáttum eins og Criminal Minds.

Aðalsögupersónan veit ekki alveg hvort hún á að vinna í teymi rannsóknardeildarinnar sem hún tilheyrir eða leika bandarískan einfara sem bjargar öllum hlutum með ofurmannlegum hasaratriðum sem virðast skrifuð fyrir kvikmyndatökuvélina en ekki lesanda. Zack, aðalsögupersónan gerir því sitt lítið af hverju á milli þess sem hann slæst við djöfla fortíðar og nútíðar og sína eigin samvisku. Útlitið minnir mest á vel klipptan og rakaðan Marvel Thor en útlitið, allt hans sálarstríð, einstæðingsskapur og hetjutilburðir vekja ekki neina samúð eða samkennd með persónunni.

Auðvitað las ég bókina til enda en ég mæli samt ekki við henni við nokkurn mann, það er yfrið nóg til að betri reyfurum til að lesa þegar mann langar í spennulestur.

 

Birt í Bækur, Lestrarátakið 2015 | Færðu inn athugasemd

13. Germanía og gægjuþöfin

Gægjuþörf minni verður seint fullnægt en henni var þó svalað um stundarsakir af Corneliusi Tacitus, rómverskum sagnfræingi sem skrifaði ritið Germaníu á síðustu árum fyrstu aldar. Árið 98 e. Krist er oftast nefnt í því sambandi.
Með lestrinum skyggndist ég inn um gættir fortíðar því í ritinu fjallar Tacitus um Germaníu og þjóðflokkana sem byggðu landið á hans dögum. Ég sá útlínur lífshátta fornra germanskra þjóðflokka, línur sem að vísu eru mótaðar af persónulegum smekki og skoðunum höfundarins. Ritið er nefnilega áróðursrit, því var ætlað draga upp mynd af dyggðum Germana sem vörpuðu andstæðuljósi á lesti Rómverja sem voru verulega siðspilltir að mati Tacitusar (og margra annara).

Höfundur byggir verkið ekki á eigin reynslu og rannsóknum, heldur á verkum og frásögnum annarra. Ýmislegt af því sem hann segir um siði og háttu germönsku þjóðflokkana er úrelt þegar Germanía er skrifuð enda tóku samfélög Germana miklum breytingum á þeim tíma sem þeir bjuggu í nábýli við og undir stjórn Rómverja.
Margt er þó rétt og stutt af fornleifarannsóknum og öðrum samtímaritum og sumir þeirra þjóðflokka sem Tacitus nefnir hér koma hvergi fyrir í öðrum heimildum og ritið því eina heimild okkar um tilvist þeirra. Í þeim köflum sem höfundur greinir frá búsetusvæðum þjóðflokkanna er eins og hann sé að rekja sig eftir landakorti og við lesturinn fann ég hjá mér þörf til að draga fram Evrópukort og merkja inn á búsetusvæði. Við yfirborðskennda rannsóknarvinnu á veraldarvefnum komst ég svo að því að einhver góður Germaníuáhugamaður sparaði mér þá vinnu því ég fann ágætis kort sem búið var að merkja inn á hvert búsetusvæði.
Tactius er hrokafullur hástéttarmaður, viðhorf hans til Germana og samlanda sinns litast af stéttahroka hans og í verkinu kemur berlega fram að bestu og göfugust germönsku þjóðflokkarnir vour þeir sem höfðu orðið fyrir mestum áhrifum af rómverska heimsveldinu en án þess þó að temja sér lesti og siðspillingu Rómverjanna. Eflaust er hér ýmislegt afbakað, á annað ekki minnst og það sem dregið er fram er auðvitað það sem utanaðkomandi kemur fyrst auga í, þ.e. það sem er ólíkt með hans heimamönnum og heimkynnum og hinum framandi þjóðum. Þannig er flestum farið sem skoða ókunnug lönd og þjóðir, líka þó verið sé að vinna úr efni frá öðrum eins og Tactius gerði. Verkið er þess vegna aðeins gluggi sem hleypir í gegn daufu endurskini fornarar menningar Germana og svalrar þó gægjuþörf minni upp að vissu marki. Gefur mér hugmyndir til að vinna úr ef og þegar ég held áfram að velta mér upp úr sögu þeirra persóna sem hafa hreiðrað um sig í hugarfylgsnum mínum undanfarið.
Rökrétt næsta skref er þá að glugga í Gallastríði eftir Júlíus Cesar og prenta úr kortið góða til að kynna sér þessa „forfeður“ okkar betur.

Við þetta er svo aðeins því að bæta að áður en ég kom þessum pistli í loftið barst mér annað mikið grundvallar riti sem er fréttabréf Ástatrúarfélagsins. Í því er fróðlegur pistill alsherjargoða sem fjallar um þá sérstöku manngerð sem hann kallar hoffífl en þessi fíflategund lítur á Germaníu sem mikið höfuðrit um forna siði og trúarbrögð og vitna safnaðarmeðlimir gjarnan í þá frásögn að Germanir hafi hengt svikara og liðhlaupa í trjám en kæft skræfur, ragmenni og fúllífismenn í for og mýrarfenjum. Germanir áttu reyndar ekki annara kosta völ en nota forarpytti og mýrardrullu því landið var lítið annað skv. lýsingum Tacitusar. Þeir höfðu engan drekkingarhylurinn með köldu og kristaltæru vatni eins og íslenskir sanntrúaðir miðaldamenn höfðu í Öxará á Þingvöllum.
Hoffíflin hafa víst haft á orði að mæta til Íslands og vígja væntanlega hofbyggingu Ásatrúarfélagsins með sínu sanntrúaða lagi og bæta fyrir helgispjöll homma- og lespíu elskandi Íslendinga. Af þeim heitstrenginum er nafnið dregið og vísar einnig til hinna ýmsu fíflakenninga miðalda. Ég get ekki varist þeirri hugmynd að þessir hugsjónamenn væru best geymdir í þeim mýrarfenjum fornalda sem þeir dá svo mjög.

Birt í Bækur, Lestrarátakið 2015 | Færðu inn athugasemd

10. Vetrarlokun

Vetrarlokun eftir Jørn Lier Horst er glæpasagan á listanum, hún er hvorki betri né verri en aðrar glæpasögur af skandinavísku gerðinni, er ekki sú fyrsta sem ég les í ár og ábyggilega ekki sú síðasta. Höfundurinn er nýr á leslistanum mínum, starfar sem lögreglumaður og ætti því að eiga hæg heimatökin í rannsóknarvinnunni.
Þetta er þokkaleg afþreying lítið meira um það að segja, hún mætti að skaðlausu vera styttri en er ekki alveg jafn langdregin og bækur Jo Nesbøs. Aðalsögupersónan, sem að sjálfsögðu er karlkyns, á hvorki við áfangis- eða geðræn vandamál að stríða og það er að minnsta kosti tilbreyting. Voðalega er ég samt hrædd um að það fari fyrir mér með þessa eins og Ástandsbarnið hennar Camilla Läckberg, að eftir nokkur ár geti ég lesið hana aftur án þess að átta mig á því fyrr en í lokin að ég hafi gert það áður.

Birt í Bækur, Lestrarátakið 2015 | Ein athugasemd

19. Svartfugl

Hann situr undir lágri súðinni í myrkvaðri baðstofunni, úti er landið baðað blárri birtu tunglsins sem sendir kaldan geisla inn um lítinn stafnglugga. Það lýsir upp flöt af rykugum hrörlegum gólfborðum og föl birtan beinir athygli hans að sauðsvörtum hnoðra undir rúminu andspænis. Húsaskúm hugsar hann en þessi dökka slitra fangar augnaráð hans og neitar að sleppa því frjálsu. Bak hans bognar enn þegar hann teygir sig fram og tekur upp prjónaðan barnssokk.

Og nú byrja þau að tínast inn í baðstofuna til hans, hún Guðrún sem hann óskaði svo lengi að yfirgæfi þessa jarðvist og hyrfi yfir í aldingarða drottins. Jón með gapandi sárið eftir höfuðhöggið; höldarnir hans standa hönd í hönd í skugganum við stigaskörina og horfa til hans tómum augum; táturnar næturkaldar eftir frostið á ísnum og hann Gísli hans enn með þvermóðskuna meitlaða í svipinn. Hann Gísli vildi bara komast heim á Sjöundá, frekar fraus hann í hel í vökinni og táturnar með honum á ísnum en gefa sig að vondu fólki.

Síðust kemur hún konan sem hann vildi leggja allt í sölurnar til að fá. Til að eiga með henni hamingju í harðbýlu landi út við hafið, en sú hamingja fékkst ekki keypt, hversu dýru verði sem hann hafði reynt að kaupa hana. Þessi streymandi ilur sem bylgjaðist um brjóst hans eins og aldan við Skor þegar hann leit hana augum, hann var horfinn og kæmi aldrei aftur. Þegar þau eru öll komin stendur hann upp og gengur út, niður um loftskörina og niður á troðið moldargólfið í eldhúsinu undir baðstofunni. Kannski hangir trosnað hrosshársreipi í hlöðnum veggnum, það blaktir í næturgolunni sem læðir sér inn þegar hann opnar dyrnar í síðasta sinn og gengur út til að mæta örlögum sínum.

Svartfugl eftir Gunnar Gunnarsson er sagan sem er byggð á sönnum atburðum. Hana hef ég lesið áður og ætla ekki að þvertaka fyrir að ég eigi einhvern tíma eftir að lesa hana aftur.
„ójá ennþá rata ég um bæinn. Sat í baðstofunni stundarkorn – í tunglsljósinu [. . .] Sat þar þangað til mér fannst að fleiri væru mættir.“ Segir Bjarni undir lokin og myndin af manni sitjandi í myrkri baðstofu þar til hinir látnu eru komnir á kreik í nóttinni settist að í huga mér og ég spurði „Hverjir mættu þér þarna í myrkrinu Bjarni?“ Þess vegna byrjar þessi færsla eins og hún byrjar. Og við það er engu að bæta nema kannski því að geðugustu persónur sögunnar eru glæpamennirnir Bjarni og Steinunn.

Birt í Bækur, Lestrarátakið 2015 | Ein athugasemd

7. Halastjarnan

Halastjarnan eftir Tove Jansson er hluti af skipulögðu lestrarátaki ársins 2015 og það er ágætt að geta noað hana á tveimur vígstöðvum. Ég fann mér lesáætlun í janúar og raðaði inn á hana þá mörgum bókum sem ég ætlaði að lesa á árinu. Á listanum voru fyrirmæli um að lesa eina sögu um persónur sem ekki væru menn. Ég mundi ekki eftir neinu nema Dýrabæ Orvils og klóraði mér hressilega í höfuðið yfir því. Mig langaði nefnileg ekkert að lesa þá bók einu sinni enn. Svo kviknaði skært ljós sem sveif innan við hægri augabrúnina eins og leitarljós herþyrlu að næturlagi og í því ljósi birtist múmínfjölskyldan með allt sitt stóra samfélag ókennilegra vera sem búa, og búa ekki, í sömu sveit.
Í það sinnið greip ég Vetrarundur í Múmíndal, ákveðin í að rifja upp áratugagömul kynni sem hefur lítið verið haldið við á fullorðins árum.
Ég las um heimskan dauðan íkorna og forföður inni í skáp og vetrarævintýri Múmínsnáðans og Míu meðan aðrir sváfu og samspil þeirra tveggja og Tikka-Tú. Þegar þar var komið sögu áttaði ég mig á að ég þyrfti að lesa aðra Múmínbók og setja í það sæti listans sem var ætlað sögu um persónur sem ekki eru menn. Fyrir Vetrarævintýrið kom nefnilega aðeis eitt sæti til greina og það var sætið Fyndin bók. Í næstu ferð minni á bókasafn, og hún var ekki farin fyrr en ég mætti síðsumars á Stór-Kópavogssvæðið aftur, tók ég tvær Múmínbækur til viðbótar og nú er Halastjarnan afgreidd. Ekki í eitt skipti fyrir öll, nú á ég eftir að glugga í hana og spá og spekúlera.
Ætli það hafi annars ekki einhver skrifað fræðigrein um Múmínsögurnar, hér er efni í greiningu á persónusköpun og tengslamyndun í fjölskyldum. Staðalímyndir persónugerðar í Hemúlum, Snöbbum, Snorkum, Snúð og fleiri dýrum sem koma við sögu, ég veit reyndar ekkert hvort Snúður er dýr. Snúður er alla vega uppáhaldspersónan mín af mörgum góðum, hann er lítið fyrir að vera með „pinkla og pakka og böggla og knippi“ og lífsmottó hans er að enginn skyldi verða of háður eigum sínum.
Heimurinn er að farast, bísamrottan er með sífelldar dómdagsspár, og Múmínsnáðinn og Snabbi fara í langa og hættulega ferð að leita að geimrannsóknarstöð. Hætturnar og ævintýrin vega alltaf salt á brún ímyndunarafls barna í leik og fantasíuskrifum rithöfundar. Með því á ég við að ég er ekki viss hvort sögumaður er að segja frá ímynduðum hættum sögupersónanna eða raunverulegum hættum skáldverksins.

Birt í Bækur, Lestrarátakið 2015 | Ein athugasemd

4. Haugbúi

Haugbúi, sagan í 4. sæti listans, er enn ein glæpasagan og  að þessu sinni eftir sænska rithöfundinn og blaðamannin Johan Theorin. Sagan kom út í íslenskri þýðingu 2015 og mér finnst það uppfylla skilyrðin um útgáfuár.

Þetta er ekki fyrsta bókin sem ég les eftir Theorin og ekki heldur sú fyrsta um sögupersónuna Gerlof Davidsson. Það sem ég kann vel við í þessum sögum er að söguhetjan sem er alls ekki alltaf persónan sem leysir allar ráðgátur en kemur þó víða við sögu er alger andstæða hetjunnar í næstum öllum hinum glæpasögunum, bæði þeim norrænu og af enska málsvæðinu.

Þetta er gamall  skútuskipstjóri sem kominn er á elliheimili, hans vandamál er aldurinn og Sjögren heilkennið sem hann þjáist af. Hann er ekki drykkjusjúklingur, ekki dópisti, ekki þunglyndur og hefur aldrei verið á geðsjúkrahúsi, á ekki í samstarfserfiðleikum eða fjölskylduerfiðleikum. Gerlof er lífsreyndur, þroskaður einstaklingur sem sýnir mönnum umburðarlyndi og virðingu, líka morðingjum.

Hér vinnur Theorin líka með sögulegt efni sem ég var algerlega fáfróð um, fólkið sem flutti frá Svíþjóð, og öðrum löndum, í nýja landið í austri og hver örlög þess varð á tímum ógnarstjórnar Stalíns. Sterk og áhugaverð umfjöllun um örlög hugsjónamanna sem héldu að þeir væru að flytja í sæluríkið.

Sögusviðið er alltaf það sama, lítil eyja undan ströndum Svíþjóðar og eftir lestur á öllum þeim bókum Theorins sem komið hafa út í íslenskri þýðingu er mig farið að langa til að heimsækja Öland.

Birt í Óflokkað | Ein athugasemd

24. Rökkurbýsnir og bókarkápan

Sem ég sit þar í þokusuddanum, og í hug mér rennur grunur um snæviþakin fjöllin sem umlykja dalinn á þessu kalda sumri, velti ég því fyrir mér hvar ég eigi að að byrja. Næri mig á hálfvolgri linsubaunakássu með rauðgulum kyrnóttum þykkildum sem stappast illa saman við kássuna og illa soðiðn hýðishrísgrjón bresta undir tönn.
Kássan veldur mér ógleði, tilraunir til að hita hana bæta ekki úr skák og ég sný mér að kaffibrúasanum sem reynist illa við að halda hita á kaffinu. Það er moðvolgt og suðusúkkulaðið stendur heldur ekki undir væntingum.
Kaffið má þó hita upp svo dugi, kássuna þarf ég ekki að borða frekar en ég vil og súkkulaðið bráðnar i munni þegar kaffið er orðið vel heitt. Snarkið í logandi eldiviðnum í kamínunni gefur fyrrheit um notalega stund og úti drýpur íslenskt regn af upsum hússins. Út í það veður þarf ég ekki að fara frekar en ég vil
Ég sit ekki í útlegð úti í Gullbjarnarey, þarf ekki að staulast út í vetrarmyrkrið til að berja úr gaddfrosnu næturgagni, treina mér söl og bein í súpur, skafa súrt smjör úr tunnu og láta hálfa mjölskeppu duga allan veturinn. Ég sit bara og reyni að að meðtaka áhrifin af lestri Rökkurbýsna jafnframt því að rökstyðja fyrir sjálfri mér hverst vegna bók eftir Sjón var valin sem „bók eftir höfund sem ég dái“
Góða stund eftir að lestrinum líkur er ég undir áhrifum af orðfæri sagnamannsins. Hér ríkir margorður miðaldastíll sem höfundi tekst bærilega að temja sér og gera sannfærandi til að mynda með því að byrja setningar á sagnorðum. „Greip Láfi þá um býfurnar..“ í stað þess að Láfi grípi um býfurnar og kvikt mannshræið ólmast ekki undir særingum heldur „hið kvika mannshræ“
Sagan er sem sagt nokkuð sannfærandi frásögn miðaldamannsins Jónarar lærða. Sálarlífið, hjátrúin, bábyljurnar og miskunarleysi mannlífsins skila sé og ég velti fyrir mér hugarheimi þeirra sem trúðu því að loftandar smokruðu sér ofan í gapandi mannskepnurnar og óskasteinar flytu upp í vötnum landsins við ákveðin tækifæri.
Ég leiddi það hjá mér að hæð Adams var í metrum talin þó lengdareiningin alin væri notuð annar staðar (hvenær var annars metratalið tekið upp?) Ég hugsaði um metnaðinn, þrána eftir frægð og upphefð sem dró Jónas norður á Snjáfjallaströnd að kveða niður draug og hver sé munurinn á þeirri þörf, og kjánalegri draugatrúnni, og frægðarþörf nútímamannsins með kjánalegri trú á andlega leiðsögn samfélagsmiðla. Þessi þörf sem tjáir látlaust, „Sjá, ég fæ athygli, þess vegna er ég.“
Hvers vegna Rökkurbýsnir eftir Sjón? Var það kápan sem fangaði athygli mína þar sem hún lá á útsöluborði eða var það titillinn? Sennilega hvorutveggja. Ég er hrifin af titlinum sem vísar í rökkur í margvíslegum skilningi og þær býsnir sem geta brotist um í hálfbirtunni. Rökkur í siðmenningu, rökkur í sálarkyrnunni, rökkur í þekkingu mannshugans, rökkur í mannúð og manngæsku
Beinagreindin á bókarkápu situr álút á steini hefur lagt vinstri fót yfir hné hægri fótar, heldur báðum höndum um ristarbeinin og horfir rannsakandi, athugulum holum augntóftum undir ilina. Kannski er hún að telja beinin í mannslíkamanum. Skoða af nákvæmni samtengingar þeirra af viðlíka áhuga og Jónas lærði hafði á öllu sköpulagi manna og dýra. Mig minnir hún þó mest á svæðanuddara sem meðhöndlar sjálfan sig og einbeitir sér að þrýstipunktum undir tábergi sínu. Kannski er þó þessi einbeitta beinagrind frekar að hugsa um sigg eða líkþorn sem angraði hana í lifanda lífi eða draga flís sem rakst inn í kjúkuna þegar hún spyrnti sér upp af kistubotninum á leið sinni upp á yfirborðið.
Bók eftir Sjón átti að vera á listanum sem bók eftir höfund em ég dái og hvers vegna varð hann fyrir valinu? Sennilega er það vegna þess að nýlega endurskoðaði ég hugmyndir mínar um höfundinn. Ég hafði einhvern tíma myndað mér yfirborðskennda hugmynd um háfleygan, óskiljanlegan moðhaus sem skrifað samhengislaust bull, svo las ég Mánastein og svo las ég Skugga-Baldur. Þá vildi svo vel til að ég var nýbúin að endurmeta gildi skaáldskapar (þ.e. prósa) og taldi ekki lengur að skáldskapur þyrfti að vera línuleg frásögn sem þættist vera sannleikur.
Sjón, vegna þess að það er ekki hægt annað en að dá höfund Mánasteins og höfund sem getur skrifað sjálfan sig inn í hvert verk sitt, líka sem sendling – en svo skipti ég um skoðun, nei ekki á Sjón heldur á úthlutuðu sæti Rökkurbýsna. Þessi bók var keypt vegna beinagrindarinnar, það að hún er eftir Sjón var bara uppbót, hún fer þess vegna í 24. sæti leslistans, bók sem er valin út á kápuna.

Birt í Bækur, Lestrarátakið 2015 | Ein athugasemd

45. Maðurinn sem stal sjálfum sér

Bók númer 45 er Maðurinn sem stal sjálfum sér er ævisaga karabísks þræls sem varð verslunarstjóri á Djúpavogi og síðar smábóndi á sama stað. Hann giftist, eignaðist tvö börn, dó ungur, og afkomendurnir eru orðnir nokkur hundruð núna í upphafi 21. aldar.

Bak við þessa ævisögu liggur greinilega mikil og áhugaverð rannsóknarvinna og það fer vel að draga fram í dagsljósið æviferil mannsins sem olli því að Djúpvogur fékk viðurnefnið Kongó eftir miðja 20. öld.

Einhvern veginn er það svo að þeir sem eru lítt kunnugir afkomendum Hans Jónatans halda að svarta hárið, dökka yfirbragðið og kannski brún augu séu ríkjandi í útliti þeirra. Þegar ég lít í huganum yfir þá afkomendur sem ég man eftir er ljósrauðbirkið litarhaft, rautt hár og blá augu einkennandi fyrir hópinn. Auðvitað þekki ég samt ekki nema hluta þeirra en þó þann hluta sem hefur verið viðloðandi Austurland. Viðurnefni eins og Kongó, negri, múlatti og hvað eina sem vísar í uppruna Hans Jónatans á einstaklega illa við um það fólk.

Kongókenningin sem á uppruna sinn á Hornafirði er svo auðvitað til marks um lélega þekkingu á landafræði og þrælasölu og það hefði verið nærri lagi að kenna þorpið við Ghana.

Bókin hefst á umfjöllun um þrælaverslun, þrælahald og ómennsku og þar eru útskýrðar nafnabreytingarnar sem miðuðu markvisst að því að svipta hina mennsku eign allir mannlegri reisn og sjálfstæði. Sá lestur leiðir hugann ósjálfrátt að útlendingum sem þurftu að taka sér nýtt nafn til að öðlast íslenskan ríkisborgararétt hér á árum áður.

Þó rannsóknarvinnan og efnið séu mér að skapi var ýmislegt sem truflaði mig við lesturinn og fljótlega staldrað ég við orðin „Hugsanlega hefur ástarfundur foreldranna…“ en fljótlega á eftir þeim orðum er vitnað í Oldendrop sem segir að herrann telji sig hafa ótakmarkaðan rétt fyrir líkömum þrælanna og geti komið fram vilja sínum ef honum sýnist svo. „Munúðarlegur taktur“ sem dregur saman blökkustúlkuna, þrælinn, og hvítan karl kemur líka eins og skollinn úr sauðarleggnum í þessu umhverfi eignar og mansals. Um huga minn hvörfluðu frekar myndir sem eiga lítið skylt við hugljúfa ástarstund og munúð og þó líkamlegu valdi hafi ef til vill ekki verið beitt á þeirri stundu sem Hans Jónatan var getinn á sykurplantekrunni á St. Croix sumarið 1783 er valdajafnvægi þrælsins, konunnar, og hvíta karlmannsins svo mikið að orðið ástarfundur er ekki orð sem kemur fyrst upp í hugann. (29-30)

Annað sem truflar mig í lestrinum eru orðin kannski, líklega, hugsanlega, hefur án efa, vafalaust og önnur álíka orð sem notuð eru til að lýsa því sem höfundur vildi gjarnan að hefði gerst og flest er það frekar á ljúfu nótunum. Ég hugleiddi um stund að telja þessi orð á fyrstu hundarað blaðsíðunum en fannst það svo ekki svara kostnaði.
Langsóttar bollaleggingar um faðerni drengsins þjóna svo litlum tilgangi öðrum en þeim að lengja söguna og kannski til að hrekja orðróm og sögusagnir um hver faðir hans var. Þeim hefði að skaðlausu mátt sleppa og láta nægja að draga fram þau rök sem sýna fram á líklegt faðerni hans, svo ég noti nú orðin líklegt og mögulegt líka. Enginn veit hver faðir drengsins var og mér þykir það litlu máli skipta enda hefur umhverfi og uppeldi meira að segja í mótun mannsins en erfðaefnið.
Þegar Hans Jónatan hefur svo lokið við að stela sjálfum sér og siglir á vit hamingjunnar á Djúpavogi held ég áfram að staldra við í lestrinum og hiksta á ákveðnum atriðum. Gömul klisja, í ætt við alþýðuskýringar um að heiðnir menn hafi burðast með líkneski sín upp á Goðaborgina og hent þeim þar fram hefði mátt missa sín. (128) Reyndar hefur mér alltaf fundist þessi skýring hjákátleg, hvers vegna ætti nokkrum að hafa dottið sú firra í hug þegar nóg er af háum hömrum út um allar hlíðar til dæmis Rakkabergið. Á það er auðveldara að komast og  þar hefði mátt  splundra goðum í alvöru falli í allra augsýn. En áfram með hann Hans.

Þegar  strokuþrællinn kemur að landi er bjart yfir öllu og umfjöllunin um komuna  til  Íslands er í takt við þá ljúfu tóna sem slegnir eru á eftir orðunum kannski og líklega um alla bók. Tignarlegir jöklar og tindar rísa við hafsbrún, síðan birtast Austfjarðafjöllin og við Papey er fjölskrúðugt fuglalíf sem er ólíkt því sem drengurinn á að venjast úr Karabíska hafinu. Samkvæmt minni reynslu – en ef til vill er skoðun mín mótuð af lestri bókarinnar í gegnumgangandi þokusúld, rigningu og langvarandi austan átt sumarið 2015 – hefur skipið sem bar Hans Jónatan til fyrirheitna landsins komið að í suðaustanátt og skýin hafa hangið niður undir neðstu hamra Búlandstindsins nema veðrið hafi verið eins og höfundur hefur eftir Theodor Zeilaus sem kom að landinu ríflega hálfri öld síðar. „[…] skall á kolsvört þoka svo við sáum aðeins örfá fet frá okkur.“(129)

Vísanir í duldar leiðir, allt að því yfirnáttúrulegar, í það minnsta genatískar eru óþarflega víða fyrir minn smekk. Til dæmis þar sem segir „það er líkast því að ferðafélagar Hans Jónatans hafi verið bundnir einhverjum leyniþráðum. Eða fylgdi hann kannski öllum sem fóru um?“(156) Liggur það ekki nokkuð í augum uppi að verslunarþjónninn sem talaði bæði dönsku,ensku og sjálfsagt einhverja íslensku hafi verið kjörinn leiðsögumaður allra útlendinga sem áttu leið um svæðið?

Múlattinn úr Karabíska hafinu var vel liðinn, bæði af yfirvöldum og almúganum, hann giftist eignaðist börn, lífið hefði átt  að bjóða honum breiðan veg til hamingjuríkra elliára, manni finnst hann hafi átt það skilið, en þannig fór það ekki. Þó ég segi að faðernið skipt ekki mál nær það ekki lengra en að því marki að ættgengir sjúkdómar svipta mönnum stundum burt þegar síst skildi og ýmislegt bendir til að gen úr föðurættinni haf ráðið skyndilegu andláti Hans.
Í nöldurlok er svo því við að bæta að einhver hefði mátt upplýsa höfund bókarinnar um þá alkunnu staðreynd að inni á Búlandsdal sem og annar staðar á svæðinu eru bara tvær áttir, suður og austur.  Hálsarnir (sem hann hefur reyndar í eintölu, Hálsinn) eru sunnan Búlandsár en Búlandstindur er austan hennar.(156)
Aftur að því sem vel er gert. Bókin byrjar sterkt og eftir að hafa nýlokið við Rökkurbýsnir þar sem lýst er aðförum Strandamanna við að brytja niður Baska á 17. öld hafði ég varla taugar í að lesa upphafskaflann sem fjallar um aðfarirnar við þrælahald og sölu. Mér fannst nóg komið af lestri um illsku mannanna.  Hryllingurinn sem fjallað er um í upphafi dofnar þó út þegar líður á vangaveltur um uppruna og ættir Hans Jónatans og móður hans og ég varð hans ekki vör aftur fyrr en í síðasta hluta bókarinnar, þá kom hann sterkur inn. Þar snýr höfundur sér líka aftur að sögulegum staðreyndum þrælahalds og sölu, ber hana saman við Helförina og segir frá nýlendusýningunni í Kaupmannahöfn á 19. öld. Þar fór um mig illur, en gagnlegur, hrollur og að lestri loknum er ég þeirrar skoðunar að best skrifaði hluti bókarinnar – og besti hlutinn er nokkuð góður – sé sá sem tekur við þar sem eiginlegri ævisögu sleppir.

Birt í Bækur, Lestrarátakið 2015 | Ein athugasemd

32-34 Afbrigði, Andóf, Arfleifð

„Hugrekki flest í því að takast á við hversdaginn, harka af sér sársaukann og reyna að hundsa gínandi tómið innra með sér. Þeð er ein leið, ein gerð hugrekkis.“ Þessi athugsemdi er efst á blaði í þeim punktum sem ég hripaði niður meðan ég las þríleikinn Afbrigði, Andóf, Arfleifð í einni striklotu í janúar síðstliðnum. Síðan eru liðnir margir mánuður, hugsanir mínar um efni bókanna horfnar út í norðanvindinn og ég man ekki lengur hvort þetta er mín orð eða höfundar. Eitt er ég þó viss um og það er að tilefnið eru tilfinningar, sársauki, vonir, þrár og örlög sögupersónanna.
Síðan hripaði ég niður „Það deyja margir í þessari sögu (og hér tala ég um allar þrjár bækurnar sem eina sögu) og það drepa margir í henni. Bæði þær sögupersónur sem manni fer að þykja vænt um og þær sem maður er lítið hrifinn af. Hér eru þó fáir alslæmir og fáir algóðir, bara mannlegir. Ólíkt mörgum spennusögum af þessu tagi finnst gott og slæmt í einni og sömu persónunni.“
Niðurstaðan? Tilraunir til að rækta nothæft mannkyn með aðferðum erfðafræðnnar eru dæmdar til að mistakast, það liggur í mannlegu eðli.
Við þetta er aðeins einu að bæta: Um margt minnir þessi þríleikur á Hungurleikaseríuna en þessi saga hefur meiri dýpt, betri persónusköpun.

Ég velti því fyrir mér hvort ég sé að svíkja það heit mitt um að blogga um hverja einustu bók af þessum 52 sem ég lofaði að lesa í ár ef ég afgreiði hér þrjár í einu. Ég get ekki gert það upp við mig en hef samviskubit og ef því linnir ekki fyrir 31. desember 2015 verð ég bara að skipta þessu upp í þrjár umfjallanir.

Birt í Bækur, Lestrarátakið 2015 | Færðu inn athugasemd

2. Piltur og stúlka

Ein klassísk ástarsaga er á lestrarátakslistanum mínum og ég ákvað að sagan um þau Sigríði og Indriða í héraðinu … væri ákaflega sígild og vel til þess fallin að verma annað sæti listans.
Ég hef lesið Pilt og stúlku einhvern tíma áður, einu sinni eða tvisvar, kannski oftar en það en í þá tíð var ég ung og saklaus og las verkið nokkuð gagnrýnislaust, velti ekki fyrir mér persónusköpun, sögusviði eða öðrum hlutum sem gera sögu að sögu.

Milli þeirra lestra og lestursins nú liðu áratugir sem markast af misþungri lífsreynslu og ferðum þvers og krus yfir jökulár og svo fór þessi síðasti lestur fram við undirleik Jökulsár í Lóni ekki langt frá þeim stað sem hún kemur undan jökli. Ég las og áin söng djúpri rámri röddu og skellti björgunum saman með þungu kæfðu banki á árbotninum. Hvernig sem ég reyndi gat ég ekki séð fyrir mér jökulsá sem væri svo lygn og hljóðlát að börn gætu setið á klettum sitt hvoru megin við hana og spjallað saman um hugðarefni sín eins og þau Indriði og Sigríður gera í sögunni því allra síst eru ár hljóðar og kyrrar í klettaþrengslum. Þetta truflaði mig núna á gamals aldri. Svona getur lífið og raunsæið farið illa með upplifun manns á bókmenntunum en látum það liggja milli hluta og kíkjum á nokkur önnur atriði.

Upphaf sögunnar er á þessa leið: „Á austanverðu Íslandi liggur hérað eitt mikið og fagurt, er …..hérað heitir;“ og síðar í sögunni segir: „Bjarni átti systur, er Björg hét; hún var ekkja og auðug vel; hún bjó í Skagafirði á bæ þeim, sem heitir V…; Hér er ekkert verið að hafa áhyggjur af örnefnum og nöfnum, höfundur skellir bara eyðu í þeirra stað, að vísu ekki nema á stöku stað, og leyfir lesanda að geta sér þess til hvaða héruð og bæir eru til umfjöllunar hverju sinni. Einhvern veginn kann ég ekki alveg við þennan stíl en átta mig á að þröngsýni minni er um að kenna. Kannski ég ætti að prófa þetta fyrirkomulag í á haustönn og sjá hvað ritlistarkennarar segja um aðferðina.

Piltur og stúlka er eftir Jón Thoroddsen og kom út 1850. Verkið telst ekki vera fyrsta íslenska skáldsagan heldur sú sem var fyrst gefin út hér og flestir sem tjá sig um hana á veraldarvefnum (já, ég gluggaði aðeins í hann) segja hana vera raunsæa, nema hvað varðar sögupersónur og söguþráð bæta sumir við. Það má taka undir þau orð, lýsingar á búskaparbasli Íslendinga í sveitum eru sennilega nokkuð raunsæjar og ég efast ekki um að lífinu í Reykjavík er rétt lýst líka. Þetta eru ágætar samtímaheimildir og nú áttað ég mig á að atriðið þar sem Guðmundur á Búrfelli klýfur diskinn sinn með matfork í brúðkaupsveislunni bendir til þess að íslenskir sveitamenn á 19. öld hafi verið vanastir því að borða með spóni úr aski og kannski tálga ketbitana úr hnefa með vasahnífnum. Söguna má vel nota sem heimild um lífið á þeim tíma sem hún var samin.

Við kynnumst sögupersónunum, Sigríði og Indriða sem börnum, þau vaxa og fella hugi saman, ill öfl reyna að stía þeim í sundur og formúlan er nokkuð regluleg. Þrjár þrautir eða hindranir þarf að yfirstíga áður en parið nær saman en allt endar vel eins og vera ber.
Þetta lukkulega par minnir mig á systkinin í sögunni um Láka jarðálf, afar góð og afar litlaus, þau eru gæskan og leiðindin uppmáluð. Þeir Gvendur og Bárður á Búrfelli eru margfallt áhugaverðari karakterar og reyndar fleiri sem eru í aukahlutverki í sögunni. Blessunin hún Gróa á Leiti hefur haft svo mikil áhrif á íslenskt samfélag að fáir vilja heita því nafni.

Piltur og stúlka er sígild íslensk ástarsaga og ætti að vera skyldulesning í skólum landisins en þá með áherslu á sögusvið og samfélagið sem kemur fram í henni frekar en söguþráðinn sjálfan.

Birt í Bækur, Lestrarátakið 2015 | Ein athugasemd

3.7. Víkin kvödd

 

OLYMPUS DIGITAL CAMERA

Lokadagur og þokkalega þurrt þessa stundina

Mér til mikils léttis ákvað næsti sjálfboðaliði að standa við gefin loforð og mæta í skálavörslu í dag. Ég henti því saman dótinu mínu í miklum flýti, skúraði og skrúbbaði en sleppti því að bóna. Það rigndi í á Víknaslóðum en sólin skín á Héraðið og þurrkar leðjuna sem þekur bílinn minn.
Nú er ekki um annað að ræða en hella sér í vinnuna, þó fyrr hefði verið, og reyna að vinna sér inn 10 daga frí til að sinna skálavörslu í Kollumúlanum.20150703_131303
Ég hef ekki trú á að ég verði jafn dugleg að halda dagbók þar og ég hef verið í Húsavík. Aðstaðan er öllu lélegri, lítið herbergi með koju og pínulitlu borði sem alltaf er fullt af drasli (og ekki öllu frá skálverði) og ég verð tölvulaus. Merkilegt hvað maður er orðinn háður þessu verkfæri, og þó, sjálfsagt er það ekkert merkilegt, ég er svo miklu fljótari að skrifa á það.

Birt í Daglegt líf, Skálavarsla | Færðu inn athugasemd

9. Stúlkan frá Púertó Ríkó

Höfundur bókarinnar er Esmeralda Santiago og þessi bók uppfyllir því kröfuna um að vera bók númer 9 á leslistanum, „Bók eftir konu“
Esmeralda elst upp fyrstu 13 árin í Púerto Ríko, landsvæði sem ég þekki hvorki haus né sporð á en bandarískir sjónvarpsþættir, bíómyndir og skáldsögur hafa dregið upp mynd af hættulegum glæpaklíkum bandarískra innflytjenda þaðan. Við lestur sögunnar frétti ég fyrst af því að landið eða eyjan sé hluti Bandaríkja Norður-Ameríku og því hafi íbúar þess getað sest að í öðrum ríkjum þeirra án þess að teljast eiginlegir innflytjendur. Þeir voru löglegir íbúar hvar sem þeim datt í huga að setjast að innan landamæranna ólíkt svo mörgum öðrum sem sóttu, og sækja enn, í sæluna í Bandaríkjunum.
Esmeralda elst upp við einkennilegar fjölskyduaðstæðr í fátækt, en frelsi sveitarinnar, í Puerto Ríko, flytur þaðan til Broklyn þar sem lífið er andstæða alls sem hún er vön. Þar er ófrelsið algert því utan við veggi íbúðarinnar sem 10 manna fjölskylda býr í er enginn óhultur. Fátæktin er samt hlutskipti hennar áfram.
Sagan er síðan eins og uppfylling á bandaríska draumnum, fyrir eigin verðleika kemst stelpa upp úr lægstu stéttum samfélagsins í heimsfrægan háskóla. Þessi uppfylling vona um betra líf í Ameríkunni er tilbrigði við bandaríska drauminn og ég fæ klisjuóbragð í munnin við málalokin, verð þó að sætta mig við að bókin muni vera byggð á ævi höfundar og að ameríski draumurinn eigi það til að vera meira en draumur. Að því slepptu er áhugavert að lesa um líf spænskumælandi samfélags við Karabíska hafið og kjör þeirra í innflytjendagettóinu í Broklyn. Ég hafði í upphafi ákveðnar efasemdir við öll spænsku orðin sem ekki eru þýdd yfir á íslensku en þegar upp er staðið gefa þau lesanda ríka tilfinningu fyrir framandleika þessa fjarlæga heimshluta. Höfundi tekst að draga upp sannfærandi mynd af aðstæðum fjölskyldunnar í Púertó Ríkó í lok sjötta áratugar 20. aldar og lyktin og bragðið af framandi veröld lifna við í huga mínum við lesturinn.
Svo vildi svo skemmtilega til að í sömu vikunni og ég las þessa bók tók ég mig líka til og las bókina sem gerist í „heimabæ“ mínum. Í henni er aðalsögupersónan Hans Jónatan múlattadrengur fæddur í Karabíska hafinu. Leyndir þræðir eða skemmtileg tilviljun?

Birt í Bækur, Lestrarátakið 2015 | Ein athugasemd

2.7. Bílaþrif og bráðlætisloforð

Annar dagur í þurrki og nú loksins mundi ég eftir því að í tvö ár hef ég hugsað um það annað slagið að bílnum mínum veitti ekki af þrifum. Það er svo merkilegt að þessi hSkýringartextiugsun hvarflar helst að mér þegar ég hef ekki minnsta tíma til að sinna tiltekt og hreingerningu á farartækinu, þar til nú. Þegar þessi dagur er að kveldi kominn er búið að endurraða draslinu í bílnum og þurrka mesta rykið og moldina innan úr honum. Auðvitað er ekki ryksuga eða þvottakústur á staðnum enda gerir það minnst til, leðjan af veginum héðan úr dalnum á eftir að mynda þykkt lag utan á bílnum þegar ég fer.
Talandi um að fara, hér kom „skálaformaðurinn“ til að sinna viðgerðum og viðhaldi og er með böggum hildar yfir því að næsti skálavörður sé sennilega að svíkjast undan merkjum. Auðvitað gat ég ekki haldið mig á mottunni og sagðist geta tekið helgina líka ef það bjargaði einhverju. Svo mundi ég eftir mánaðamótum og vinnu og veit nú ekki alveg hvernig ég að að raÉg rölti líka upp á Neshálsinn og veifaði Seyðisfirði og Dalatanga. Þeir veifuðu ekki til baka. ða þessu saman.

Birt í Daglegt líf, Skálavarsla | Færðu inn athugasemd

1.7. Maraþonlestur

Fyrsti dagur júlímánaðar og vika mín farin að sigla á seinni hlutann. Ég hef stundað maraþonlestur síðustu daga og það er gott að hafa ekkert sjónvarp til að trufla húslestrana. Ég sinni bókalestri og pistlaskrifum um þær sömu bækur eins og líf mitt sé undir því komið að standa við áskorunina um að lesa 52 bækur á árinu og skrifa eitthvað um hvern lestur. Núna síðast hlustað ég á Vetrarundur í Múmíndal og renndi gegnum Eitruð epli Gerðar Kristnýar. Öll þau ósköp sem ég ætlað að gera í vistinni miklu eru óunnin. Ætli ég þurfi að klára frá allar 52 bækurnar svo ég geti farið að skrifa upp úr eigin kolli?
Meðan þokan hefur sigið upp og niður hlíðarnar hef ég fylgt henni með augunum, rakið mig í huganum eftir freistandi gönguleiðum og ákvað að rölta upp undir Skælinginn og þræða mig þenna stutta spotta eftir hjallabrúninni neðan við hann, inn eftir dalnum og niður með ánni. Leiðin er falleg séð úr dyrum skálans og þegar þokan bregður tjöldum fyrir og frá til skiptis bjóða svartir hamrarnir gestum heim.

Birt í Daglegt líf, Skálavarsla | Færðu inn athugasemd

30.6 Samviskubit á síðasta degi mánaðar

Í útvarpinu flytur Ævar hugvekju, við tölvuna sit ég með samviskubit. Því veldur tvennt, það fyrra er að ég fór ekki í tveggja tíma göngutúr í dag eins og ég var búin að heita sjálfri mér. Tveir tímar á dag meðan ég er í útlegðinni og svo tveir tímar á dag eftir að ég kem heim, þá verð ég komin í yfirþyrmandi gott form fyrr en varir. Ég læri seint að setja mér raunhæf markmið eða stilla vonum og væntingum til sjálfrar mín í hóf. Í dag rigndi að venju og uppstyttan sem ég ætlaði að fá undir kvöldið brást. Nú rignir sem aldrei fyrr. Ég læt mig því hafa að fara að sofa með samvisku sem nagar brjósholið eins og minkur nagar fótinn á sér til að losna úr gildru. Ef hún verður ekki þögnuð annað kvöld drekki ég henni í rauðvíni. Það tjáir ekki að taka birgðirnar allar með heim aftur. Hitt samviskubitið mitt er vegna þess að ég stendi ekki við loforðið um að skrifa bókapistla um hverja bók af þessum fimmtíu og tveimur sem ég ætla að lesa í ár. Ég las þríleik, skrifaði um hann nokkrar línur, ekki um hverja bók heldur heildarverkið. Mér finnst ég vara að svíkjast um. Þess vegna hef ég heitið því að taka allar bækurnar aftur og skipta pistlinum upp í þrennt í lok árs – ef mér tekst ekki að svæfa samvikubitið með hvítvíni um vetrarnætur. Ég get ómöguleg drekkt bæði göngusamviskubitinu og bloggbitinu í sömu víntegund. Er það?
Í dag fékk ég hóp í skálann, þau gáfu mér steikt eggjabrauð í morunmat og kötsúpu í kvöldmat og hádegismat. Til að losna við hana gaf ég næstu göngumönnum af því sem eftir var í pottinuml – þeir voru fegnir – trússarinn var líka feginn að fá hádeigsmat og þannig á lífið að vera á fjöllum. Allir eiga að deila umframbirgðum sínum öðrum til gleði og eflingar bræðralags þjóðanna.
Það er í mér eirðarleysi að hafa ekki komið mér út í rigningargöngu en moldarslóðinn upp á Neshálsinn var fráhrindandi í dag og leiðin yfir á fjörðinn er líka á brattann, blaut og þræðir sig í gegnum djúpa skafla þar sem moldarleðjan nær upp ökla. Leiðin fram í víkina höfðar til mín, bara ekki að vaða þessa blessaða ársprænu. Svo langar mig að ganga upp á hálsinn og inn með Skælingnum.
„Úti í rigningunni sofa tveir drengir frá Vankúver  – þessir drengir virðast vel færir um að bjarga sé en ég benti þeim þó á að skrifa í gestabækurnar hvertæ tluðu og hbernær þeir ætuðu að gera þar.“ (svona skrifar maður í hálfmyrkri, í vondum stól og við slæmt borð. Best að lofa þessu að standa.)

Hvað sem líður öllu röfli um óunnin afrek má ég vera sátt við afköstin í blókalestri og blókabloggi, ég hef unnið upp helling af efni sem ég var búin að lesa en átti eftir að skrifa um og svo las ég slatta af nýju efni. Fann því stað eftir niðurskipun heimsins og skrifaði skoðun mína á viðkomandi efni.
Mig langar í þurrt veður og göngutúar á morgun.

Birt í Daglegt líf, Skálavarsla | Færðu inn athugasemd

29. 6. Ófriður og úrkoma

Með bættu vegasambandi er friðsæld þokunnar rofin af bílaumferð og þar til viðbótar þustu átján Venúsaelar (eða hvað kallast fólk sem býr í landinu Venúsaela?) og  tveir íslenskir leiðsögumenn með einn Belga með sér í skála í dag. Tjaldbúinn minn er mættur aftur, nú laumar hann sér í skálann í stað þess að breiða úr tjaldinu sínu undir eldhúsglugganum enda er sléttan þar hæfilegt aðsetur fyrir endur eða óðinshana. Meira að segja kollóttar ær með eiturgrænum flekkjum forðast þann mýrarfláka eftir úrkomuna í síðasta sólahring.
Eftir japl og jaml og fuður var Jón hrak grafinn út og suður, ég slapp við greftrunina en japlaði, jamlaði og harkaði þess í stað af mér í rigningargöngu. Ég bý á gatnamótum, fyrsta daginn gekk ég út að sjó, annan daginn upp á hálsinn sunnan við mig og ég dag átti ég bara um einn slóða að velja ef ég vildi forðast móa og mýrarsprikl. Hvers vegna í ósköpunum eru gúmmístígvélin mín ekki í bílnum?
Ganga dagsins var í austur átt eftir aurugum veginum og gegnum snjóruðningana frá því í gær. Rúmur klukkutími frá bæ og tæpur klukkutími að bæ, það gerðu 7,47 km og 618 kaloríur. Betra að skrifa það hjá sér því ganga sem hefur ekki annað markmið enn njóta lífsins eða að koma göngumanni í örlítið betra form en hann var í fyrir gönguna er lítils virði. Rétt eins og landslagið sem væri lítils virð ef það héti ekki neitt er hreyfing enskis virði á markmiðs, skráningar og samanburðar. Appið í snjallsímanum er gulls ígildi en því miður, afrek sem unnin eru án netsambands eru engin arfek, þau fá ekki varanlega skráningu um leið og appinu er lokað er „engin ganga þessa viku“ á skjánum mínum.
Ég er nútímakona sem þarf að hafa gönguferlana skráðað upp á kílómetir, á kroti, með gönguhraða og hækkunum. Eitt sinn gekk ég til kinda, átti ekki síma og í skólafríum gekk ég um urðir, fjörur, móa, eyrar, hjalla og hlíðar til þess að njóta samveru við sjálfa mig, landið, vættina og þá hunda sem tilheyrðu bænum á hverjum tíma og fylgdu mér dyggilega á öllum gönguferðum.
Svo rammt kvað að að á andvökunóttum lokað ég augunum, rakti í huganum hvert mitt spor upp að ánni, í huganum stiklaði ég á steinum yfir hana á vaðinu, rakti svo hvert fótmál mitt niður með henni. Yfir og upp, til baka og niður og yfir aftur á hverju vaði eða steinastiklum, uns ég sofnað værum svefni um það leyti sem ég var komin niður að brú.
Hér vantar enn húslestur, kannski fer ég að lesa upphátt fyrir grátandi gluggarúðurnar, lesa um þræla á sykurplantekrum, skáldskaparlistina, eitruð epli og Maríu mey. Ég bíð með það þar til gestirnir verða fanir á morgun.

Mér finnst öfugsnúið að það þurfi að biðja fólk að aka ekki um mýrar og móa.

Mér finnst öfugsnúið að það þurfi að biðja fólk að aka ekki um mýrar og móa.

Birt í Daglegt líf, Skálavarsla | Færðu inn athugasemd

8. Nauðfluttir broddgeltir og óborganlegar persónur

Í maVetrarundur_í_Múmíndalraþonlestri á Víknaslóðum rifjaði ég upp kynni mín af Múmínálfunum með því að hlusta á hljóðbókina Vetrarundur í Múmíndal. Fljótlega áttaði ég mig á að húmor minn hefur breyst frá því ég var barn og las þessar bækur heima í stofu, ég man að minnsta kosti ekki eftir að hafa hlegði jafn mikið við lesturinn þá. Orð eins og Mía litla notar til að lýsa verkuninni á tehettunni úr Múmínhúsinu: „ það væri ekki einu sinni hægt að gefa hana nauðfluttum broddgelti.“ og svo athugasemdir höfundar sem segir „Nauðfluttur broddgöltur er broddgöltur sem fluttur hefur verið að heiman gegn vilja sínum án þess svo mikið sem að fá tækifæri til að taka tannburstann sinn með sér.“ eru dæmi um óborganlegar lýsingar. Þegar Kælan svo frystir íkornann fær Mía ekki að klippa af honum skottið til að nota í múffu. Íkorninn var jarðaður en dauðum íkorna er alveg sama hvort hann hefur fallegt skott, segir Mía ákveðinn, en Múmínsnáðinn er þessu mjúka samúðarfulla manngerð (eða álfgerð) og fær alvöru jarðaför, eða ekki. Þegar þarna var komið í lestrinum varð ég vör við göngumann sem átti erindi upp að dyrnum hjá mér og í flýti þurrkaði ég tárin sem streymdu niður kinnarnar við skoðanaskipti Míu og Múmínsnáðans. Ég hafði nefnilega áhyggjur af því að gesturinn teldi mig gráta í eymd og volæði í smáhýsinu mínu. Upphaflega átti þessi bók að fara í 7. sæti á leslistanum mínum, bók um persónur sem ekki eru menn en meðan á lestrinum stóð skipti ég um skoðun. Ég ákvað að þessi bók ætti aðeins heima í einu sæti listans, þetta er fyndin bók hún fer í 8. sæti listans og til að uppfylla kröfuna um ómennskar persónur finn ég bara aðra Múmínbók.

Birt í Bækur, Lestrarátakið 2015 | Færðu inn athugasemd

28 júní og uppstytta

Það lýtur út fyrir gott berja ár

Það lítur út fyrir gott berjaár

28.6.2015
Í uppstyttu dagsins gekk ég upp á Neshálsinn, upp í þokuna, alveg að vörðunni þar sem síminn nær sambandi við umheiminn. Á bakaleiðinni sótti hún í sig veðrið, prinsessan í álögunum. Enginn situr lengur yfir fé, smalamennskur aðrar en haustgöngur hafa lagst af en eru menn enn að bölva þokunni? Ætli hún losni nokkurn tíma úr álögum þessi elska?
Á leiðinni niður mætti ég trússbíl og fljótlega eftir að ég komst í hús sá ég snjóruðningstæki fara fram hjá, þess vegna beið ég ekki boðanna og fékk far með trússaranum þegar hann fór til baka. Nú stendur bíllinn minn í hlaðinu, einangrun minni er lokið strax á þriðja degi og ef mér sýnist svo get ég farið í siðmenninguna og keypt mér meiri lopa og prjóna í stað þeirra sem ég gleymdi. Ég veit ekki hvort mér líkar tilhugsunin vel eða illa.

Birt í Óflokkað, Daglegt líf, Skálavarsla | Færðu inn athugasemd

27.6.2015 „Hugann grunar við grassins rót …“

„Hugann grunar við grassins rót, gamalt spor eftir lítinn fót“ orti Jón Helgason og þau orð hans ásækja mig í göngu dagsins.

OLYMPUS DIGITAL CAMERA

Sauðamergur, Loiseleuria procumbens

Veðrið breytir ekki út af vana sínum hér á Víknaslóðum, það er þoka og súld, þokusúld og súldarþoka. Himinn og haf, fjöllin, dalurinn og áin sveipuð sínum vætuþrungna gráma sem deyfir út allt ljós, allt myndefni verður flatt og litlaust. Meira að segja fagurbleikur sauðamergurinn sem þekur móann nær ekki að fanga athygli myndavélarinnar. Kollóttar ær eru kuldalegar í vætunni og í kvöld kroppar ein tvílemd undir eldhúsglugganum mínum, ungi tjaldbúinn er farinn suður eftir fjörðum en ég og ærnar í dalnum njótum kyrrðarinnar, árniðsins, fossahljómsins og suðsins í rafstöðinni.
Um miðjan dag léttir þokunni yfirleitt upp í miðjar hlíðar og þá gríp ég tækifærið og bleyti gönguskóna, ég forðast móa og mýrar en held mig við bílveginn til reyna ekki of mikið á kulda- og bleytuþol fóta minna.Í dag var það kirkjugangan, þó fór ég ekki alla leið, heldur staðnæmdist þar sem vegurinn beygir fyrir holtið og guðshúsið blasir við. „Loksins sá hún bóndabæ, með björt og gullin þil, hann stóð þar upp á brekkubrún við blómskreytt lækjagil“ sagði Davíð um göngu kerlingarinnar með sálina, en ég var bara með myndavél í rauðgulum bakpoka, enga sál í skjóðu og hér voru engin björt og gullin þil, aðeins hvítir kirkjuveggir og flögnuð málning á eyðibýlum. Í stað gilsins með blómunum liggur snarbrattur malarbakkinn í sjó fram. Lækurinn sem rennur eftir gömlu túnunum hefur grafið hyldjúpa skorninga í móann, svo djúpa og dimma að ekki sér til botns í þeim, vegfarandi sem leggur við hlustir heyrir bara lækinn fossa niður í djúpinu, hér er langt niður á fast berg.

Tveir eyðibæir og eitt guðshús

Víkin er grasgefinn, undirlendið mikið og góðar slægjur en sveitinni er líkt farið og Himnaríki forðum þar sem „kerlingunni brá engin bólstur engin ljá“, hér hefur ekki verið settur ljár í gras í áratugi, frammi í víkinni við hlið guðshússins standa síðust bæirnir sem búið var á í dalnum. Innar má sjá græna hóla með reglulegum hrúgum sem vitna um búsetu á tímum torfbæjanna.
Ískálanum veit ég af blöðum sem geyma sögu víkurinnar, bæjanna og fólksins sem bjó í þeim en blöðin segja ekki frá lífi þeirra, líðan, tilfinningum, hugsunum. Leið þeim vel í víkinni sinni og inni í dalnum, bölvuðu þau mýrarflákunum þegar mýrarrauðan og ískalt vatnið bullaði í fótspor þeirra og smaug ofan í sauðskinnsskóna meðan þau hlupu eftir rolluskjátunum? Langaði börnin burt þegar þau uxu úr grasi eða óskuðu þau þess að dalurinn bæri einn bæinn enn, að hann hefði rúm fyrir þau, öryggi, skjól.
Gat nokkur séð fyrir sér að á næstu, eða þar næstu öld væri sveitin í eyði, aðeins skáli sem biði göngufólki skjól, fólki sem gengi ekki hér um að líta eftir fé heldur hefði það að afþreyingu að ganga um eyðibyggðir. Renndi það grun í þriggja laga goritexfatnaðinn, þykkbotna gönguskóna, bakpokana með mat sem aðeins þurfti að hella heitu vatni út í til að fá fullkomna máltíð? Að sjórinn bryti stöðugt úr melnum svo grafir þeirra molnuðu í sjó fram, að beinin stæðu út úr mölinni, rynnu svo niður með henni nokkra faðma þangað sem sjávaraldan sópaði þeim með sér út fyrir marbakkann? Hvernig hefði þeim orðið við að sjá ærnar skreyttar eitugrænum flekkjum úr spreybrúsum á lendum og bógum?

Grænmáluð ær og hestamúgavél

Um þetta og ýmislegt fleira hugsaði ég meðan ég rölti til baka inn eftir veginum, greip með mér girðingarstaur sem lág í vegakanntinum og lagði hann milli grynninga í þveránni sem teppti leið mína. Ég nennti hvorki að leggja aftur krók á leið mína upp í hlíðina til að stika hana þurrum fótum eða fara úr sokkum og skóm til að vaða. Gangan reyndist vera 7,44 km. og ég velti enn fyrir mér þeirri órafjarlægð sem skilur að þá sem áttu hér löngu horfin spor fyrr á öldum og göngumannsins með símann og appið sem telur bæði tíma og vegalengd. Stutta stund velti ég fyri mér breytingum næstu 200 ára en allt sem mér datt í hug að gæti breyst í tæknimálum var of ótrúlegt svo ég gekk heim og tók upp það sem lítið breytist þó aldir líði – prjónana.

Birt í Daglegt líf, Skálavarsla | Ein athugasemd

3. Hobbitinn

Hobbitinn er bók númer þrjú á leslistanum, sagan sem varð að bíómynd. Hann er ein af þeim óteljandi sögum sem hafa verið vænlegur gróðavegur við yfirfærslu í kvikmynd. Kannski voru þó allir að hugsa um gróðann heldur um listrænt verkefni en ætli hér hafi ekki verið sitt lítið af hvoru sem réði ferðinni.
Fyrstu kynni mín af Hobbitanum voru í enskuáfanga í framhaldsskóla, það var í eitt af þeim ótal skiptum sem ég greip í nám meðfram öðrum hlutverkum í lífinu, framhaldsskólann kláraði ég aldrei en um leið og ég stautaði mig í gegnum fyrstu blaðsíðurnar í The Hobbit varð ég hugfangin. Ég dreif mig á bókasafnið og fann mér til mikillar ánægju að sagan hafi verið þýdd á íslensku og á því tungumáli gleypti ég hana í heilu lagi. Ég minnist þess ekki að ég kláraði nokkurn tíma ensku útgáfuna sem mér hefi þó verið hollara að gera til að koma betra skikki á þá tungumálakunnáttu. Síðan þetta var eru liðnir áratugir, Hobbitann hef ég lesið að minnsta kosti tvisvar síðan þá og í vetur kláraði ég að horfa á kvikmyndirnar sem gerðar voru upp úr sögunni. Ég vatt mér aftur í söguna sjálfa í nokkurn vegin beinu framhaldi af því.
Í þetta skiptið las ég reyndar ekki Hobbitann, ég hlustaði á hann. Lesturinn dugði mér meðan ég ók frá Reykjavík austur á land og í nokkrar ferðir í og úr vinnu líka, það eru 10 km. hvora leið. Ég tók samt ekki saman kílómetrafjöldans sem lesturinn náði yfir.
Hobbitinn hefur ekki minna aðdráttarafl nú en fyrir 25 árum en ýmsu hafði ég gleymt frá síðasta lestri. Þegar ég sá kvikmyndirnar þrjár sem voru gerðar upp úr sögunni fannst mér í fyrstu þær fara langt út fyrir efni hennar en þegar ég svo hlustaði á söguna kom eiginlega flatt upp á mig hvað henni er fylgt nákvæmlega. Minnið var svolítið að svíkja mig og leikstjórinn tók sér auðvitað vald til að stækka hlutverk persónanna, draga á langinn, ýkja og betrumbæta ýmislegt svo það hentaði miðlinum.
Tolkien-aðdáandi sem ég átti tal við í vetur benti mér á nokkuð sem ég hafði ekki áttað mig á fyrr en þá, atriði sem á bæði við um kvikmyndirnar upp úr Hobbitanum og Hringadróttinssögu, og það er hvað kennslukverið Ferð höfundarins (e. The Writers Journey) og The Hero with a Thousand Faces mótar þessar myndir í sama mót, þær eru efti sömu formúlu og hinar.
Hver mynd þarf eitt stykki hetju og einn andstæðing. Hér dugir ekki hin andlitslausa myrkramakt heldur þarf að persónugera hana í orkanum sem er áþreifanlegur höfuðandstæðingur, bæði í myndinnu um Bilbó og Fróða og föruneyti hringsins.
Ég vissi að það leyndist eitthvað í myndunum sem truflaði mig, ég þurfti bara að láta benda mér á það.

Birt í Bækur, Lestrarátakið 2015 | 2 athugasemdir