11. ZACK

Spennusaga með eins orðs titli eftir tvo höfunda. Sem minnir mig á að bók eftir tvo höfunda ætti að vera á hverjum svona lesáskorunarlista en það er nú útúrdúr. 

Zack er enn einn glæpareyfarinn sem ég gleypi í mig milli lesturs á  sagnfræðiskáldverkanna á leslista komandi vorannar og eins og fyrri daginn sæki ég í Skandinavísku glæpasöguna. Þessi gerist í Svíþjóð, höfundarnir Nons Kallentoft og Markus Lutteman eru báðir sænskir og bókin er fyrsta bók í Herkúlesarseríunni, segir á bókarkápu. 

Eftir lesturinn á þessum fyrsta hluta í seríu á ég ekki eftir að leita framhaldshlutana uppi. Sagan olli mér vonbrigðum,  höfundarnir sækja í bandarísku hasareltingarleikina og hryllingspyntingarlýsingar svipaðar þeim sem eru alls ráðandi í glæpaþáttum eins og Criminal Minds.

Aðalsögupersónan veit ekki alveg hvort hún á að vinna í teymi rannsóknardeildarinnar sem hún tilheyrir eða leika bandarískan einfara sem bjargar öllum hlutum með ofurmannlegum hasaratriðum sem virðast skrifuð fyrir kvikmyndatökuvélina en ekki lesanda. Zack, aðalsögupersónan gerir því sitt lítið af hverju á milli þess sem hann slæst við djöfla fortíðar og nútíðar og sína eigin samvisku. Útlitið minnir mest á vel klipptan og rakaðan Marvel Thor en útlitið, allt hans sálarstríð, einstæðingsskapur og hetjutilburðir vekja ekki neina samúð eða samkennd með persónunni.

Auðvitað las ég bókina til enda en ég mæli samt ekki við henni við nokkurn mann, það er yfrið nóg til að betri reyfurum til að lesa þegar mann langar í spennulestur.

 

Auglýsingar
Birt í Bækur, Lestrarátakið 2015 | Færðu inn athugasemd

13. Germanía og gægjuþöfin

Gægjuþörf minni verður seint fullnægt en henni var þó svalað um stundarsakir af Corneliusi Tacitus, rómverskum sagnfræingi sem skrifaði ritið Germaníu á síðustu árum fyrstu aldar. Árið 98 e. Krist er oftast nefnt í því sambandi.
Með lestrinum skyggndist ég inn um gættir fortíðar því í ritinu fjallar Tacitus um Germaníu og þjóðflokkana sem byggðu landið á hans dögum. Ég sá útlínur lífshátta fornra germanskra þjóðflokka, línur sem að vísu eru mótaðar af persónulegum smekki og skoðunum höfundarins. Ritið er nefnilega áróðursrit, því var ætlað draga upp mynd af dyggðum Germana sem vörpuðu andstæðuljósi á lesti Rómverja sem voru verulega siðspilltir að mati Tacitusar (og margra annara).

Höfundur byggir verkið ekki á eigin reynslu og rannsóknum, heldur á verkum og frásögnum annarra. Ýmislegt af því sem hann segir um siði og háttu germönsku þjóðflokkana er úrelt þegar Germanía er skrifuð enda tóku samfélög Germana miklum breytingum á þeim tíma sem þeir bjuggu í nábýli við og undir stjórn Rómverja.
Margt er þó rétt og stutt af fornleifarannsóknum og öðrum samtímaritum og sumir þeirra þjóðflokka sem Tacitus nefnir hér koma hvergi fyrir í öðrum heimildum og ritið því eina heimild okkar um tilvist þeirra. Í þeim köflum sem höfundur greinir frá búsetusvæðum þjóðflokkanna er eins og hann sé að rekja sig eftir landakorti og við lesturinn fann ég hjá mér þörf til að draga fram Evrópukort og merkja inn á búsetusvæði. Við yfirborðskennda rannsóknarvinnu á veraldarvefnum komst ég svo að því að einhver góður Germaníuáhugamaður sparaði mér þá vinnu því ég fann ágætis kort sem búið var að merkja inn á hvert búsetusvæði.
Tactius er hrokafullur hástéttarmaður, viðhorf hans til Germana og samlanda sinns litast af stéttahroka hans og í verkinu kemur berlega fram að bestu og göfugust germönsku þjóðflokkarnir vour þeir sem höfðu orðið fyrir mestum áhrifum af rómverska heimsveldinu en án þess þó að temja sér lesti og siðspillingu Rómverjanna. Eflaust er hér ýmislegt afbakað, á annað ekki minnst og það sem dregið er fram er auðvitað það sem utanaðkomandi kemur fyrst auga í, þ.e. það sem er ólíkt með hans heimamönnum og heimkynnum og hinum framandi þjóðum. Þannig er flestum farið sem skoða ókunnug lönd og þjóðir, líka þó verið sé að vinna úr efni frá öðrum eins og Tactius gerði. Verkið er þess vegna aðeins gluggi sem hleypir í gegn daufu endurskini fornarar menningar Germana og svalrar þó gægjuþörf minni upp að vissu marki. Gefur mér hugmyndir til að vinna úr ef og þegar ég held áfram að velta mér upp úr sögu þeirra persóna sem hafa hreiðrað um sig í hugarfylgsnum mínum undanfarið.
Rökrétt næsta skref er þá að glugga í Gallastríði eftir Júlíus Cesar og prenta úr kortið góða til að kynna sér þessa „forfeður“ okkar betur.

Við þetta er svo aðeins því að bæta að áður en ég kom þessum pistli í loftið barst mér annað mikið grundvallar riti sem er fréttabréf Ástatrúarfélagsins. Í því er fróðlegur pistill alsherjargoða sem fjallar um þá sérstöku manngerð sem hann kallar hoffífl en þessi fíflategund lítur á Germaníu sem mikið höfuðrit um forna siði og trúarbrögð og vitna safnaðarmeðlimir gjarnan í þá frásögn að Germanir hafi hengt svikara og liðhlaupa í trjám en kæft skræfur, ragmenni og fúllífismenn í for og mýrarfenjum. Germanir áttu reyndar ekki annara kosta völ en nota forarpytti og mýrardrullu því landið var lítið annað skv. lýsingum Tacitusar. Þeir höfðu engan drekkingarhylurinn með köldu og kristaltæru vatni eins og íslenskir sanntrúaðir miðaldamenn höfðu í Öxará á Þingvöllum.
Hoffíflin hafa víst haft á orði að mæta til Íslands og vígja væntanlega hofbyggingu Ásatrúarfélagsins með sínu sanntrúaða lagi og bæta fyrir helgispjöll homma- og lespíu elskandi Íslendinga. Af þeim heitstrenginum er nafnið dregið og vísar einnig til hinna ýmsu fíflakenninga miðalda. Ég get ekki varist þeirri hugmynd að þessir hugsjónamenn væru best geymdir í þeim mýrarfenjum fornalda sem þeir dá svo mjög.

Birt í Bækur, Lestrarátakið 2015 | Færðu inn athugasemd

10. Vetrarlokun

Vetrarlokun eftir Jørn Lier Horst er glæpasagan á listanum, hún er hvorki betri né verri en aðrar glæpasögur af skandinavísku gerðinni, er ekki sú fyrsta sem ég les í ár og ábyggilega ekki sú síðasta. Höfundurinn er nýr á leslistanum mínum, starfar sem lögreglumaður og ætti því að eiga hæg heimatökin í rannsóknarvinnunni.
Þetta er þokkaleg afþreying lítið meira um það að segja, hún mætti að skaðlausu vera styttri en er ekki alveg jafn langdregin og bækur Jo Nesbøs. Aðalsögupersónan, sem að sjálfsögðu er karlkyns, á hvorki við áfangis- eða geðræn vandamál að stríða og það er að minnsta kosti tilbreyting. Voðalega er ég samt hrædd um að það fari fyrir mér með þessa eins og Ástandsbarnið hennar Camilla Läckberg, að eftir nokkur ár geti ég lesið hana aftur án þess að átta mig á því fyrr en í lokin að ég hafi gert það áður.

Birt í Bækur, Lestrarátakið 2015 | Ein athugasemd

19. Svartfugl

Hann situr undir lágri súðinni í myrkvaðri baðstofunni, úti er landið baðað blárri birtu tunglsins sem sendir kaldan geisla inn um lítinn stafnglugga. Það lýsir upp flöt af rykugum hrörlegum gólfborðum og föl birtan beinir athygli hans að sauðsvörtum hnoðra undir rúminu andspænis. Húsaskúm hugsar hann en þessi dökka slitra fangar augnaráð hans og neitar að sleppa því frjálsu. Bak hans bognar enn þegar hann teygir sig fram og tekur upp prjónaðan barnssokk.

Og nú byrja þau að tínast inn í baðstofuna til hans, hún Guðrún sem hann óskaði svo lengi að yfirgæfi þessa jarðvist og hyrfi yfir í aldingarða drottins. Jón með gapandi sárið eftir höfuðhöggið; höldarnir hans standa hönd í hönd í skugganum við stigaskörina og horfa til hans tómum augum; táturnar næturkaldar eftir frostið á ísnum og hann Gísli hans enn með þvermóðskuna meitlaða í svipinn. Hann Gísli vildi bara komast heim á Sjöundá, frekar fraus hann í hel í vökinni og táturnar með honum á ísnum en gefa sig að vondu fólki.

Síðust kemur hún konan sem hann vildi leggja allt í sölurnar til að fá. Til að eiga með henni hamingju í harðbýlu landi út við hafið, en sú hamingja fékkst ekki keypt, hversu dýru verði sem hann hafði reynt að kaupa hana. Þessi streymandi ilur sem bylgjaðist um brjóst hans eins og aldan við Skor þegar hann leit hana augum, hann var horfinn og kæmi aldrei aftur. Þegar þau eru öll komin stendur hann upp og gengur út, niður um loftskörina og niður á troðið moldargólfið í eldhúsinu undir baðstofunni. Kannski hangir trosnað hrosshársreipi í hlöðnum veggnum, það blaktir í næturgolunni sem læðir sér inn þegar hann opnar dyrnar í síðasta sinn og gengur út til að mæta örlögum sínum.

Svartfugl eftir Gunnar Gunnarsson er sagan sem er byggð á sönnum atburðum. Hana hef ég lesið áður og ætla ekki að þvertaka fyrir að ég eigi einhvern tíma eftir að lesa hana aftur.
„ójá ennþá rata ég um bæinn. Sat í baðstofunni stundarkorn – í tunglsljósinu [. . .] Sat þar þangað til mér fannst að fleiri væru mættir.“ Segir Bjarni undir lokin og myndin af manni sitjandi í myrkri baðstofu þar til hinir látnu eru komnir á kreik í nóttinni settist að í huga mér og ég spurði „Hverjir mættu þér þarna í myrkrinu Bjarni?“ Þess vegna byrjar þessi færsla eins og hún byrjar. Og við það er engu að bæta nema kannski því að geðugustu persónur sögunnar eru glæpamennirnir Bjarni og Steinunn.

Birt í Bækur, Lestrarátakið 2015 | Ein athugasemd

7. Halastjarnan

Halastjarnan eftir Tove Jansson er hluti af skipulögðu lestrarátaki ársins 2015 og það er ágætt að geta noað hana á tveimur vígstöðvum. Ég fann mér lesáætlun í janúar og raðaði inn á hana þá mörgum bókum sem ég ætlaði að lesa á árinu. Á listanum voru fyrirmæli um að lesa eina sögu um persónur sem ekki væru menn. Ég mundi ekki eftir neinu nema Dýrabæ Orvils og klóraði mér hressilega í höfuðið yfir því. Mig langaði nefnileg ekkert að lesa þá bók einu sinni enn. Svo kviknaði skært ljós sem sveif innan við hægri augabrúnina eins og leitarljós herþyrlu að næturlagi og í því ljósi birtist múmínfjölskyldan með allt sitt stóra samfélag ókennilegra vera sem búa, og búa ekki, í sömu sveit.
Í það sinnið greip ég Vetrarundur í Múmíndal, ákveðin í að rifja upp áratugagömul kynni sem hefur lítið verið haldið við á fullorðins árum.
Ég las um heimskan dauðan íkorna og forföður inni í skáp og vetrarævintýri Múmínsnáðans og Míu meðan aðrir sváfu og samspil þeirra tveggja og Tikka-Tú. Þegar þar var komið sögu áttaði ég mig á að ég þyrfti að lesa aðra Múmínbók og setja í það sæti listans sem var ætlað sögu um persónur sem ekki eru menn. Fyrir Vetrarævintýrið kom nefnilega aðeis eitt sæti til greina og það var sætið Fyndin bók. Í næstu ferð minni á bókasafn, og hún var ekki farin fyrr en ég mætti síðsumars á Stór-Kópavogssvæðið aftur, tók ég tvær Múmínbækur til viðbótar og nú er Halastjarnan afgreidd. Ekki í eitt skipti fyrir öll, nú á ég eftir að glugga í hana og spá og spekúlera.
Ætli það hafi annars ekki einhver skrifað fræðigrein um Múmínsögurnar, hér er efni í greiningu á persónusköpun og tengslamyndun í fjölskyldum. Staðalímyndir persónugerðar í Hemúlum, Snöbbum, Snorkum, Snúð og fleiri dýrum sem koma við sögu, ég veit reyndar ekkert hvort Snúður er dýr. Snúður er alla vega uppáhaldspersónan mín af mörgum góðum, hann er lítið fyrir að vera með „pinkla og pakka og böggla og knippi“ og lífsmottó hans er að enginn skyldi verða of háður eigum sínum.
Heimurinn er að farast, bísamrottan er með sífelldar dómdagsspár, og Múmínsnáðinn og Snabbi fara í langa og hættulega ferð að leita að geimrannsóknarstöð. Hætturnar og ævintýrin vega alltaf salt á brún ímyndunarafls barna í leik og fantasíuskrifum rithöfundar. Með því á ég við að ég er ekki viss hvort sögumaður er að segja frá ímynduðum hættum sögupersónanna eða raunverulegum hættum skáldverksins.

Birt í Bækur, Lestrarátakið 2015 | Ein athugasemd

4. Haugbúi

Haugbúi, sagan í 4. sæti listans, er enn ein glæpasagan og  að þessu sinni eftir sænska rithöfundinn og blaðamannin Johan Theorin. Sagan kom út í íslenskri þýðingu 2015 og mér finnst það uppfylla skilyrðin um útgáfuár.

Þetta er ekki fyrsta bókin sem ég les eftir Theorin og ekki heldur sú fyrsta um sögupersónuna Gerlof Davidsson. Það sem ég kann vel við í þessum sögum er að söguhetjan sem er alls ekki alltaf persónan sem leysir allar ráðgátur en kemur þó víða við sögu er alger andstæða hetjunnar í næstum öllum hinum glæpasögunum, bæði þeim norrænu og af enska málsvæðinu.

Þetta er gamall  skútuskipstjóri sem kominn er á elliheimili, hans vandamál er aldurinn og Sjögren heilkennið sem hann þjáist af. Hann er ekki drykkjusjúklingur, ekki dópisti, ekki þunglyndur og hefur aldrei verið á geðsjúkrahúsi, á ekki í samstarfserfiðleikum eða fjölskylduerfiðleikum. Gerlof er lífsreyndur, þroskaður einstaklingur sem sýnir mönnum umburðarlyndi og virðingu, líka morðingjum.

Hér vinnur Theorin líka með sögulegt efni sem ég var algerlega fáfróð um, fólkið sem flutti frá Svíþjóð, og öðrum löndum, í nýja landið í austri og hver örlög þess varð á tímum ógnarstjórnar Stalíns. Sterk og áhugaverð umfjöllun um örlög hugsjónamanna sem héldu að þeir væru að flytja í sæluríkið.

Sögusviðið er alltaf það sama, lítil eyja undan ströndum Svíþjóðar og eftir lestur á öllum þeim bókum Theorins sem komið hafa út í íslenskri þýðingu er mig farið að langa til að heimsækja Öland.

Birt í Óflokkað | Ein athugasemd

24. Rökkurbýsnir og bókarkápan

Sem ég sit þar í þokusuddanum, og í hug mér rennur grunur um snæviþakin fjöllin sem umlykja dalinn á þessu kalda sumri, velti ég því fyrir mér hvar ég eigi að að byrja. Næri mig á hálfvolgri linsubaunakássu með rauðgulum kyrnóttum þykkildum sem stappast illa saman við kássuna og illa soðiðn hýðishrísgrjón bresta undir tönn.
Kássan veldur mér ógleði, tilraunir til að hita hana bæta ekki úr skák og ég sný mér að kaffibrúasanum sem reynist illa við að halda hita á kaffinu. Það er moðvolgt og suðusúkkulaðið stendur heldur ekki undir væntingum.
Kaffið má þó hita upp svo dugi, kássuna þarf ég ekki að borða frekar en ég vil og súkkulaðið bráðnar i munni þegar kaffið er orðið vel heitt. Snarkið í logandi eldiviðnum í kamínunni gefur fyrrheit um notalega stund og úti drýpur íslenskt regn af upsum hússins. Út í það veður þarf ég ekki að fara frekar en ég vil
Ég sit ekki í útlegð úti í Gullbjarnarey, þarf ekki að staulast út í vetrarmyrkrið til að berja úr gaddfrosnu næturgagni, treina mér söl og bein í súpur, skafa súrt smjör úr tunnu og láta hálfa mjölskeppu duga allan veturinn. Ég sit bara og reyni að að meðtaka áhrifin af lestri Rökkurbýsna jafnframt því að rökstyðja fyrir sjálfri mér hverst vegna bók eftir Sjón var valin sem „bók eftir höfund sem ég dái“
Góða stund eftir að lestrinum líkur er ég undir áhrifum af orðfæri sagnamannsins. Hér ríkir margorður miðaldastíll sem höfundi tekst bærilega að temja sér og gera sannfærandi til að mynda með því að byrja setningar á sagnorðum. „Greip Láfi þá um býfurnar..“ í stað þess að Láfi grípi um býfurnar og kvikt mannshræið ólmast ekki undir særingum heldur „hið kvika mannshræ“
Sagan er sem sagt nokkuð sannfærandi frásögn miðaldamannsins Jónarar lærða. Sálarlífið, hjátrúin, bábyljurnar og miskunarleysi mannlífsins skila sé og ég velti fyrir mér hugarheimi þeirra sem trúðu því að loftandar smokruðu sér ofan í gapandi mannskepnurnar og óskasteinar flytu upp í vötnum landsins við ákveðin tækifæri.
Ég leiddi það hjá mér að hæð Adams var í metrum talin þó lengdareiningin alin væri notuð annar staðar (hvenær var annars metratalið tekið upp?) Ég hugsaði um metnaðinn, þrána eftir frægð og upphefð sem dró Jónas norður á Snjáfjallaströnd að kveða niður draug og hver sé munurinn á þeirri þörf, og kjánalegri draugatrúnni, og frægðarþörf nútímamannsins með kjánalegri trú á andlega leiðsögn samfélagsmiðla. Þessi þörf sem tjáir látlaust, „Sjá, ég fæ athygli, þess vegna er ég.“
Hvers vegna Rökkurbýsnir eftir Sjón? Var það kápan sem fangaði athygli mína þar sem hún lá á útsöluborði eða var það titillinn? Sennilega hvorutveggja. Ég er hrifin af titlinum sem vísar í rökkur í margvíslegum skilningi og þær býsnir sem geta brotist um í hálfbirtunni. Rökkur í siðmenningu, rökkur í sálarkyrnunni, rökkur í þekkingu mannshugans, rökkur í mannúð og manngæsku
Beinagreindin á bókarkápu situr álút á steini hefur lagt vinstri fót yfir hné hægri fótar, heldur báðum höndum um ristarbeinin og horfir rannsakandi, athugulum holum augntóftum undir ilina. Kannski er hún að telja beinin í mannslíkamanum. Skoða af nákvæmni samtengingar þeirra af viðlíka áhuga og Jónas lærði hafði á öllu sköpulagi manna og dýra. Mig minnir hún þó mest á svæðanuddara sem meðhöndlar sjálfan sig og einbeitir sér að þrýstipunktum undir tábergi sínu. Kannski er þó þessi einbeitta beinagrind frekar að hugsa um sigg eða líkþorn sem angraði hana í lifanda lífi eða draga flís sem rakst inn í kjúkuna þegar hún spyrnti sér upp af kistubotninum á leið sinni upp á yfirborðið.
Bók eftir Sjón átti að vera á listanum sem bók eftir höfund em ég dái og hvers vegna varð hann fyrir valinu? Sennilega er það vegna þess að nýlega endurskoðaði ég hugmyndir mínar um höfundinn. Ég hafði einhvern tíma myndað mér yfirborðskennda hugmynd um háfleygan, óskiljanlegan moðhaus sem skrifað samhengislaust bull, svo las ég Mánastein og svo las ég Skugga-Baldur. Þá vildi svo vel til að ég var nýbúin að endurmeta gildi skaáldskapar (þ.e. prósa) og taldi ekki lengur að skáldskapur þyrfti að vera línuleg frásögn sem þættist vera sannleikur.
Sjón, vegna þess að það er ekki hægt annað en að dá höfund Mánasteins og höfund sem getur skrifað sjálfan sig inn í hvert verk sitt, líka sem sendling – en svo skipti ég um skoðun, nei ekki á Sjón heldur á úthlutuðu sæti Rökkurbýsna. Þessi bók var keypt vegna beinagrindarinnar, það að hún er eftir Sjón var bara uppbót, hún fer þess vegna í 24. sæti leslistans, bók sem er valin út á kápuna.

Birt í Bækur, Lestrarátakið 2015 | Ein athugasemd