Bók númer 45 er Maðurinn sem stal sjálfum sér er ævisaga karabísks þræls sem varð verslunarstjóri á Djúpavogi og síðar smábóndi á sama stað. Hann giftist, eignaðist tvö börn, dó ungur, og afkomendurnir eru orðnir nokkur hundruð núna í upphafi 21. aldar.
Bak við þessa ævisögu liggur greinilega mikil og áhugaverð rannsóknarvinna og það fer vel að draga fram í dagsljósið æviferil mannsins sem olli því að Djúpvogur fékk viðurnefnið Kongó eftir miðja 20. öld.
Einhvern veginn er það svo að þeir sem eru lítt kunnugir afkomendum Hans Jónatans halda að svarta hárið, dökka yfirbragðið og kannski brún augu séu ríkjandi í útliti þeirra. Þegar ég lít í huganum yfir þá afkomendur sem ég man eftir er ljósrauðbirkið litarhaft, rautt hár og blá augu einkennandi fyrir hópinn. Auðvitað þekki ég samt ekki nema hluta þeirra en þó þann hluta sem hefur verið viðloðandi Austurland. Viðurnefni eins og Kongó, negri, múlatti og hvað eina sem vísar í uppruna Hans Jónatans á einstaklega illa við um það fólk.
Kongókenningin sem á uppruna sinn á Hornafirði er svo auðvitað til marks um lélega þekkingu á landafræði og þrælasölu og það hefði verið nærri lagi að kenna þorpið við Ghana.
Bókin hefst á umfjöllun um þrælaverslun, þrælahald og ómennsku og þar eru útskýrðar nafnabreytingarnar sem miðuðu markvisst að því að svipta hina mennsku eign allir mannlegri reisn og sjálfstæði. Sá lestur leiðir hugann ósjálfrátt að útlendingum sem þurftu að taka sér nýtt nafn til að öðlast íslenskan ríkisborgararétt hér á árum áður.
Þó rannsóknarvinnan og efnið séu mér að skapi var ýmislegt sem truflaði mig við lesturinn og fljótlega staldrað ég við orðin „Hugsanlega hefur ástarfundur foreldranna…“ en fljótlega á eftir þeim orðum er vitnað í Oldendrop sem segir að herrann telji sig hafa ótakmarkaðan rétt fyrir líkömum þrælanna og geti komið fram vilja sínum ef honum sýnist svo. „Munúðarlegur taktur“ sem dregur saman blökkustúlkuna, þrælinn, og hvítan karl kemur líka eins og skollinn úr sauðarleggnum í þessu umhverfi eignar og mansals. Um huga minn hvörfluðu frekar myndir sem eiga lítið skylt við hugljúfa ástarstund og munúð og þó líkamlegu valdi hafi ef til vill ekki verið beitt á þeirri stundu sem Hans Jónatan var getinn á sykurplantekrunni á St. Croix sumarið 1783 er valdajafnvægi þrælsins, konunnar, og hvíta karlmannsins svo mikið að orðið ástarfundur er ekki orð sem kemur fyrst upp í hugann. (29-30)
Annað sem truflar mig í lestrinum eru orðin kannski, líklega, hugsanlega, hefur án efa, vafalaust og önnur álíka orð sem notuð eru til að lýsa því sem höfundur vildi gjarnan að hefði gerst og flest er það frekar á ljúfu nótunum. Ég hugleiddi um stund að telja þessi orð á fyrstu hundarað blaðsíðunum en fannst það svo ekki svara kostnaði.
Langsóttar bollaleggingar um faðerni drengsins þjóna svo litlum tilgangi öðrum en þeim að lengja söguna og kannski til að hrekja orðróm og sögusagnir um hver faðir hans var. Þeim hefði að skaðlausu mátt sleppa og láta nægja að draga fram þau rök sem sýna fram á líklegt faðerni hans, svo ég noti nú orðin líklegt og mögulegt líka. Enginn veit hver faðir drengsins var og mér þykir það litlu máli skipta enda hefur umhverfi og uppeldi meira að segja í mótun mannsins en erfðaefnið.
Þegar Hans Jónatan hefur svo lokið við að stela sjálfum sér og siglir á vit hamingjunnar á Djúpavogi held ég áfram að staldra við í lestrinum og hiksta á ákveðnum atriðum. Gömul klisja, í ætt við alþýðuskýringar um að heiðnir menn hafi burðast með líkneski sín upp á Goðaborgina og hent þeim þar fram hefði mátt missa sín. (128) Reyndar hefur mér alltaf fundist þessi skýring hjákátleg, hvers vegna ætti nokkrum að hafa dottið sú firra í hug þegar nóg er af háum hömrum út um allar hlíðar til dæmis Rakkabergið. Á það er auðveldara að komast og þar hefði mátt splundra goðum í alvöru falli í allra augsýn. En áfram með hann Hans.
Þegar strokuþrællinn kemur að landi er bjart yfir öllu og umfjöllunin um komuna til Íslands er í takt við þá ljúfu tóna sem slegnir eru á eftir orðunum kannski og líklega um alla bók. Tignarlegir jöklar og tindar rísa við hafsbrún, síðan birtast Austfjarðafjöllin og við Papey er fjölskrúðugt fuglalíf sem er ólíkt því sem drengurinn á að venjast úr Karabíska hafinu. Samkvæmt minni reynslu – en ef til vill er skoðun mín mótuð af lestri bókarinnar í gegnumgangandi þokusúld, rigningu og langvarandi austan átt sumarið 2015 – hefur skipið sem bar Hans Jónatan til fyrirheitna landsins komið að í suðaustanátt og skýin hafa hangið niður undir neðstu hamra Búlandstindsins nema veðrið hafi verið eins og höfundur hefur eftir Theodor Zeilaus sem kom að landinu ríflega hálfri öld síðar. „[…] skall á kolsvört þoka svo við sáum aðeins örfá fet frá okkur.“(129)
Vísanir í duldar leiðir, allt að því yfirnáttúrulegar, í það minnsta genatískar eru óþarflega víða fyrir minn smekk. Til dæmis þar sem segir „það er líkast því að ferðafélagar Hans Jónatans hafi verið bundnir einhverjum leyniþráðum. Eða fylgdi hann kannski öllum sem fóru um?“(156) Liggur það ekki nokkuð í augum uppi að verslunarþjónninn sem talaði bæði dönsku,ensku og sjálfsagt einhverja íslensku hafi verið kjörinn leiðsögumaður allra útlendinga sem áttu leið um svæðið?
Múlattinn úr Karabíska hafinu var vel liðinn, bæði af yfirvöldum og almúganum, hann giftist eignaðist börn, lífið hefði átt að bjóða honum breiðan veg til hamingjuríkra elliára, manni finnst hann hafi átt það skilið, en þannig fór það ekki. Þó ég segi að faðernið skipt ekki mál nær það ekki lengra en að því marki að ættgengir sjúkdómar svipta mönnum stundum burt þegar síst skildi og ýmislegt bendir til að gen úr föðurættinni haf ráðið skyndilegu andláti Hans.
Í nöldurlok er svo því við að bæta að einhver hefði mátt upplýsa höfund bókarinnar um þá alkunnu staðreynd að inni á Búlandsdal sem og annar staðar á svæðinu eru bara tvær áttir, suður og austur. Hálsarnir (sem hann hefur reyndar í eintölu, Hálsinn) eru sunnan Búlandsár en Búlandstindur er austan hennar.(156)
Aftur að því sem vel er gert. Bókin byrjar sterkt og eftir að hafa nýlokið við Rökkurbýsnir þar sem lýst er aðförum Strandamanna við að brytja niður Baska á 17. öld hafði ég varla taugar í að lesa upphafskaflann sem fjallar um aðfarirnar við þrælahald og sölu. Mér fannst nóg komið af lestri um illsku mannanna. Hryllingurinn sem fjallað er um í upphafi dofnar þó út þegar líður á vangaveltur um uppruna og ættir Hans Jónatans og móður hans og ég varð hans ekki vör aftur fyrr en í síðasta hluta bókarinnar, þá kom hann sterkur inn. Þar snýr höfundur sér líka aftur að sögulegum staðreyndum þrælahalds og sölu, ber hana saman við Helförina og segir frá nýlendusýningunni í Kaupmannahöfn á 19. öld. Þar fór um mig illur, en gagnlegur, hrollur og að lestri loknum er ég þeirrar skoðunar að best skrifaði hluti bókarinnar – og besti hlutinn er nokkuð góður – sé sá sem tekur við þar sem eiginlegri ævisögu sleppir.