20. maí og síðasti dagur fyrir heimferðina

<![CDATA[

20. maí og síðasti dagur fyrir heimferðina
Yerevan, Armenia

Yerevan, Armenia


20. maí (dagurinn fyrir heimferð)Ekki getum við verið án þess að kíkja á eina eða tvær kirkjur í ferðalok en sem betur fer eru þær bara örskotsferð út frá Yerevan. Við þá fyrri stendur karlmaður og flautar á hvítar og brúnar dúfur sem hnita hringi um kirkjuturninn. Þær þekkja merkið og koma í morgunmat á stéttina, sennilega fá þær morgunmat í hvert sinn sem túristarúturnar koma að kirkjunni því rétt á eftir okkur er önnur rúta og þá er sýningin endurtekin. Sýningin enda góð og ég geri mitt besta til að ná öllu saman á mynd. Kirkjan er eins og aðrar kirkjur í Armeníu, gömul, hlaðin og hlaðin átrúnaði sem er svo þykkur að maður finnur þyngdaraflið aukast innan við dyrnar. Í kjallaraherbergi í þessari kirkju er skrautleg kista með líkamsleifum konu sem var grýtt í hel fyrir einhverjum öldum fyrir það að neita að giftast e. konungnum. Mér verður hugsað til kynsystra hennar sem eru grýttar til bana í dag fyrir engu meiri sakir og enginn leggur í skrautlegar steinkistur með ámáluðu loki og hefur þær til skýja sem píslarvotta. Sem þær þó eru engu síður en þessi. Kirkja númer tvö er staðsett í heilmiklu fræðasetri prestaskóla og pretláta, sennilega biskupssetrið þeirra þarna. Ég nenni ekki inn í kirkjuna og nenni ekki heldur að hlusta á leiðsögumanninn, sit bara úti í sólinni og mynda allt sem hreyfist og líka það sem ekki hreyfist. Við bíðum eftir prósesíunni sem lætur bíða eftir sér og að lokum missir Foringinn þolinmæðina og stefnir hópnum í átt að rútunni, ég sig eftir á mótþróaskeiðinu en þori ekki öðru en rölta af stað og reyna að hafa augun í hnakkanum, tilbúin að snúa við ef prósesían skildi nú koma út úr fylgsnum sínum. Það gerist ekki og ég rölti eftir hópnum. Mér til mikillar mæðu er hópurinn allur komin inn í enn eina minjagripaverslunina og ég er ekki í nokkru stuði til að berjast um fersentimetraplássið við afgreiðsluborðið, svo ég stilli mér upp úti við hliðina á Einfaranum sem ekki fer inn í minjagripabúðir frekar en fyrri daginn. Þegar við heyrum svo kirkjuklukkurnar taka lagið á bak við okkur og engin af félögunum er farinn að tínast úr út sjoppunni ákveðum við að hlaupa sem leið liggur aftur að kirkjunni og kíkja eftir biskupi með alla sína preláta í prósesíu (ég vona að þetta sé rétt skrifað, en það skiptir svo sem ekki öllu máli) og sjá okkur hlotnast sú upphefð að sjá presta á hinum ýmsu stigum metorða ganga í heiðursgöngu á undan biskupi yfir torgið og inn í kirkjuna. Biskup blessar fólk í bak og fyrir á göngu sinni en ég læt mér nægja að tylla mér upp á fótstykki næstu súlu og miða vídeo vélinni á skarann. Næ ágætis skotum og fer sátt yfir í rútuna. Á leiðinni til Yerevan komum við svo við í hofsrústum frá heiðni, enn hlusta ég ekki á fræðilesturinn enda orðin löngu mett af fróðleik. Nota önnur skynfæri en eyrun til að meðtaka staðinn, sólina, vindinn, gróðurinn og ilminn af nýslegnu grasi og þegar ferðafélagarnir rekast á maur með stóra bjöllu í eftirdragi heyrist kallað ,,hvar er Hafrún“ og geri það auðvitað fyrir þau að mynda maurinn meðan hann kjagar áfram með þennan óhöndulega farangur þar til hann dettur framm af veggnum og ég sé hans sögu ekki lengur. Eftir hádegið er svo frjáls dagur í Yerevan og þann tíma nota flestir til að fara á markaðinn. Markaðurinn er nk Kolaport, nema þessi er utandyra undir ótal bláum plashimnum, mörgum sinnum stærri en íslenskip flóamarkaðurinn og þarna er selt handverk í margra kílómetra löngum röðum. Ég rölti umm, kaupi sitt lítið af hverju. Velti því alvarlega fyrir mér að kaupa belti út tré, meira að segja sylgjan á því er úr tré og ég þyrfti ekki að vera að rífa af mér beltið þegar ég fer í gegnum öryggishliðin á flugvöllunum ef ég væri með þetta, hugsa ég með mér. Sleppi því nú samt og læt líka tannlækningatækin og skammbyssuhlustrin eiga sig, dúkur, sjöl, krossar og annað smálegt ratar nú samt í hendur mínar áður en ég fer heim á hótel aftur. Ég ygli mig aðeins framan í sjálfa mig yfir þeim ódugnaði að hafa ekki labbað meira um borgina og skoðað mig um á eigin spítur en það þjónar engun tilgangi. Allt hefur sinn tíma og í þessari ferð var ekki minn tíma til að rölta ein í ró og næði um götur og stræti ókunnra borga. Við borðum kvöldmat snemma, klárum að pakka og reynum að ná okkur í nokkurra tíma blund fyrir flugið.


]]>

Um hafrun

Íslenskufræðingur, ritlistarnemi og áhugamaður um allt milli himins og jarðar - eða hér um bil.
Þessi færsla var birt undir Óflokkað. Bókamerkja beinan tengil.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s