42. The Arrival, saga án orða

Bók númer 42 á lesátakslistanum mínum á að vera myndskreytt bók og hvað uppfyllir þá kröfu betur en bók sem er bara myndir.

The Arrival er eftir listamanninn, rithöfundinn og kvikmyndagerðarmanninn  Shaun Tan sem er fæddur í Ástralíu 1974. Bæði bókin og höfundurinn eru margverðlaunuð og svo sem ekki ástæða til að rekja það hér, upplýsingar um hvoru tveggja eru aðgengilegar á veraldarvefnum.   Svo er líka hægt að fylgjast með honum á bloggsíðunni The Bird King. 

Ég heillaðist af þessari bók í fyrsta skipti sem ég sá hana og varð mér úti um tvö eintök af henni, annað á ég, hitt var gefið. Ég las mitt eintak spjaldana á milli þegar ég fékk hana í hendur  en fannst nú kominn tími til að endurlesa og endurmeta og athuga hvort mér sást ekki yfir eitthvað í fyrstu umferð. Kannski sást mér  ekki yfir svo margt í fyrsta lestri, þó ég væri hálfblinduð af aðdáun yfir því hvernig höfundurinn Shaun Tan fer að því að segja mikla sögu án orða og yfir teiknihæfileikum og hugmyndaflugi hans. Núna hugsaði ég meira um söguna sjálfa, persónur og boðskapinn en minna um teiknihæfileikana Tans.

Shaun Tan segir hér sögu manns sem flytur til framandi lands, skilur konu og barn eftir og freistar þess að hefja nýtt líf á nýjum stað í von um að geta fengið fjölskylduna til sín þegar hann hefur komið sér fyrir og aflað tekna fyrir farinu handa mæðgnunum. Gamalkunnugt stef, ekki satt?

Í upphafi bókar kynnist lesand fjölskyldu sem býr í, því að virðist, venjulegu en The Arrivalfátæklegu umhverfi. Myndirnar gætu sem best verið teiknaðar eftir evrópskum ljósmyndum frá því um miðja síðustu öld. Það eina sem er frábrugðið okkar heimi eru gaddaðir fálmarar sem hlykkjast um götur borgarinnar og varpa skugga á húsveggina.

Undan þessum fálmurum flýr sögupersónan okkar. Hún flytur til nýs heims þar sem allt er með öðru sniði, aðeins mennirnir eru eins og við eigum að venjast, allt annað sprettur upp úr hugarflugi höfundarins. Dýr, blóm, ávextir, grænmeti, farartæki og hús, allt er framandi og einkennilegt í lögun. Þó er fyrirheitna landið fallegt, þar er bjart og enga ógnvekjandi fálmarar ber við himinin yfir höfðum íbúanna.

Í nýju landi er innflytjandinn vegvilltur, þar ef fullt af alls kyns táknum sem hann skilur ekki, alls konar matur sem hann veit ekki hvernig á að borða og þó hann fái húsnæði er hann einn, vinalaus og atvinnulaus, framan af. Hann lætur ekki deigan síga, sækir um The Arrival 2hverja vinnuna eftir aðra, tekur hverju sem býðst og endar að lokum í fastri vinnu við færiband í verksmiðju. Hann kynnist öðrum innflytjendum sem flúðu líka úr ógnvekjandi aðstæðum, flúðu úr klóm þrælahaldara, undan eyðandi innrásarliði eða komu limlestir heim úr stríði,  að heimilum í auðn. Allt þetta fólk hefur komið sér upp nýju og mannsæmandi lífi á ókunnum stað og í lok bókar þegar fjölskyldan er sameinuð sér lesandi litlu stúlkuna segja  nýkomnum innflytjenda til vegar.

Allt þetta er án orða, að minnsta kosti án ritmáls en eins og kenningarsmiðir hugrænna fræða segja þá þurfum við ekki orð til að lesa. Við getum lesið sögur og hugsanir eftir táknum, líkamstjáningu og umhverfi og í þessari bók les ég fallega sögu um að það sé mögulegt að láta vonir um betra líf, lausu undan ógnaröflum, myrkri og skugga rætast. Ef mannkærleikur, samúð og hjálpsemi er til staðar á áfangastað.

Um hafrun

Íslenskufræðingur, ritlistarnemi og áhugamaður um allt milli himins og jarðar - eða hér um bil.
Þessi færsla var birt í Bækur, Lestrarátakið 2015 og merkt sem . Bókamerkja beinan tengil.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s