6. þar sem vindarnir hvílast

Bók nr. 6 á  lesátakslistanum mínum á að vera  eftir rithöfund sem er innan við þrítugt. Ég setti upphaflega  Eldhafið yfir okkur, eftir Dag Hjartarson í þetta sæti á listann en þegar ég var að dunda mér við bókaskápstiltekt rakst ég á fyrri bók Dags, þar sem vindarnir hvílast og fleiri einlæg ljóð og ákvað að lesa hana einu sinni enn.
Dagur vann bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar fyrir handrit að ljóðabókinni árið 2012 og um leið og ég opnaði þessa bók í fyrsta skipti sannfærðist ég um að hann væri vel að verðlaununum kominn.

Titillin á bókinn endurspeglar innihaldið eins og góðir bókartitlar eiga auðvitað að gera, (kannski er ég að skjóta mig í fótinn núna, en hvað um það) fyrri hlutinn örlítið ljúfsár og tregablandinn, síðar hlutinn hverfist yfir í kaldhæðni. Það svona rétt hvarflar að mér að þetta sé örlítill varanagli eða varnarveggur hjá höfundi, „Allt í lagi, ég er nokkuð einlægur en kannski er það ekki fullkomin alvara, hafðið það í huga við lesturinn“. Mér hefur oft fundist kaldhæðni snúast um þennan varnarvegg, að opna tilfinningalífið ekki alveg upp á gátt, gefa ekki fullkomið færi á sér. Ég verð þó að taka það fram sjálfrar mín vegna að með æfingunni verður kaldhæðnin allt að því eðlislæg og lætur ekki alltaf að stjórn.

Inniheld bókarinnar endurspeglar svo þennan tón titilsins, hér eru einlæg ljóð og önnur  með kaldhæðnum tón. Maður glottir út í annað að möguleikunum á að ísskápur í orkuflokki A+ og sparperur sem lýsa upp stjarnkerfi augna ástarinnar geri elskendurnar að miljarðamæringum í sparnaðarljóð III .  Í ljóðinu hvítt vakir treginn og sorgin á líknardeildinni í Kópavogi en þar sem vindarnir hvílast handan daga og drauma er einhvers að vænta. Hvers er að vænta er alfarið á valdi lesanda því hver lesandi yrkir sinn skilning og  sínar tilfinningar líka inn í ljóðin.

Ég man ekki fyrir víst hvar ég kynntist ljóðum Dags en ég er nokkuð viss um að fyrsta ljóðið sem ég rakst á eftir hann var ljóðið það eru stjörnur  og það var ást við fyrsta lestur. Ég eignaðist svo bókina og kynntist fleiri ljóðum í henni en engu þeirra tókst að ryðja þessu ljóði úr öndvegissætinu þó ég væri stundum á báðum áttum enda toga ljóð Dags í ýmsar taugar tilfinningaskalans, alltaf þó mjúklega.

það eru stjörnur

við lifum inní
dimmbláu eggi

hverja nótt
naga draumar okkar
göt á skurnina.

Um hafrun

Íslenskufræðingur, ritlistarnemi og áhugamaður um allt milli himins og jarðar - eða hér um bil.
Þessi færsla var birt í Bækur, Lestrarátakið 2015 og merkt sem . Bókamerkja beinan tengil.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s