17. The Fault in Our Stars

Um aukaverkanir dauðans, og lífsins.

Bók númer 17 á leslistanum mínum er bók sem ég hef átti í bókaskápnum mínum í rúmlega tvö ár eða síðan hún kom í minn hlut á litlu bókajólum rithringsins míns árið 2013. Bækur á ensku eru  sjaldnast mitt fyrsta val (Terry Pratchett og Neil Gaiman eru undantekningar frá því), einfaldlega af því mér liggur á að lesa en er hæglæs á enskuna og svo vil ég helst skilja hvert einasta orð í bókunum. Vitandi það var Jóhann, sem lagði þessa bók til í pottinn, með vott af samviskubiti í svipnum þegar ég opnaði pakkann minn og til að bíta höfuðið af skömminni (sem er klisja) sagði hann okkur að bókin væri um unglinga með krabbamein.  Ógreinilegt muldur umhverfis borðið benti til að saga um deyjandi börn þætti ekki líkleg skemmtilesning og Jóhann gerði máttleysislega tilraun til að sannfæra okkur um að bókin væri góð og ekki harmræn, þrátt fyrir efnið. Þar sem ég hef  oft rekið mig á að hann getur verið smekkmaður á bækur, ekki síður en félagsskap í rithringjum, ákvað ég að gefa þessari bók tækifæri og lesa hana í góðu tómi, einhvern tíma. Síðan þá hef ég oft rekið augun í bókina mína, hugsað um að lesa hana þegar tími væri til og gleymt henni svo aftur. Þangað til núna að hún smellpassaði í 17. sætið –  Hver gefur svo sem bók sem hann mælir ekki með?

Eins og hefur komið fram er sagan um unglinga með krabbamein. Þetta er ekki eina sagan um þetta viðfangsefni,  í dönsku áfanga í skóla las ég eina slíka, hún var afar dapurleg, sorgleg á köflum en, eftir á að hyggja, ekkert sérlega sannfærandi, ég veit ekki af hverju. Þessi er aftur á móti fyndin, hlý, sorgleg, heimspekileg, sannfærandi og sönn.

Fyndin af því sögupersónurnar hafa húmor, bæði fyrir sjálfum sér, lífinu og dauðanum. Og það er sannfærandi því krabbameinssjúklingar hafa leyfi til að gera grín að þessu öllu og gera það óspart. Þegar þeir eru í umhverfi þar sem það er óhætt, innan um aðra krabbameinssjúklinga þar sem brandararnir raska ekki ró heilbrigðra.

Hún er hlý vegna þess að persónurnar eru það, þeim er annt hverri um aðra, bæði á eigingjarnan og óeigingjarnan hátt. Hún er sorgleg vegna þess að aukaverkanir dauðans eru svo margar eins og Hazel sögumaður talar gjarnan um, óttinn er ein þeirra.

Hún er sönn vegna þess að hún lýsir líðan og lífi sjúklinganna á raunsæjan hátt, segir frá því sem alvöru fólk finnur, hugsar og segir. „Ég fann alla horfa á okkur, spá í hvað væri að okkur, og hvort það myndi drepa okkur, hversu mikil hetja mamma verður að vera, og allt annað. Það versta við að hafa krabbamein, stundum, eru þessi líkamlegu ummerki  sem aðgreina þig frá öðrum,“ segir sögumaðurinn á einum stað og lýsir þeim óþægindum að geta ekki fallið í fjöldann og valið um það hvort eða hvaða athygli maður fær frá umhverfinu.

Hún er svo margt fleira þessi saga en í grófum dráttum fjallar hún um ungmenni sem fengið hafa krabbamein, sum eru þessi 80% sem lifa af ákveðan tegund krabbameins, önnur þurfa að lifa með krabbameini, enginn veit hvað lengi.

Hazel Grace kynnist strák og kynnir hann fyrir bók. Þetta er góð bók en á hana vantar endirinn, hún hefur engin sögulok, lausu endarnir eru ekki hnýttir og Hazel vill fá að vita hvað verður um sögupersónurnar sem lifa, hún veit nefnilega að aðalsögupersónan í bókinni hennar deyr úr krabbameini þó það sé ekki sagt. En hvað verður um móðurina og kærasta hennar og hamsturinn? Við þessu þarf Hazel að fá svör því þau svör gætu gefið henni von um að fólkið í lífi hennar sjálfrar, faðir og móðir, eigi sér framhaldslíf þó hún deyi. Þjáningar hennar eru nefnilega ekki bara líkamlegar vegna sjúkdómsins og  andlegar vegna óttans sem er aukaverkun dauðans, samviskubitið vegna foreldranna þjakar hana líka.  Og hún er svo heppin að fá upp í hendurnar farmiða til Hollands til að hitta höfund sögunnar. Hann lofar meira að segja að gefa henni svörin sem hún leitar að og hún bankar upp á full vonar um að fá að vita það sem enginn annar í heiminum veit, hvað verður um sögupersónurnar í  bókinni hennar.

Um það leiti sem ég fylgdi Hazel Grace, og stráknum sem hún vill ekki elska til að særa hann ekki þegar hún deyr, til Hollands, ásamt móður hennar, langaði mig til að segja henni að þetta væri ekki hægt, gengi ekki upp. Kannski hefði ég einhvern tíma trúað því að hún fengi svörin en nú veit ég að sögupersónur eiga sér ekki líf eftir að sögunni líkur, enginn höfundur veit hvað tekur við þá. Ekki einu sinni þó klippt sé á söguþráð í miðju kafi, kannski er það þó ekki rétt hjá mér, þegar höfundur sleppir tökunum er líf sögupersónu er undir lesandanum komið.  Þetta langaði mig til að segja Hazel, ekki höfundi hennar því ég vissi að hann vissi, ég vissi bara ekki hvernig hann ætlaði að meðhöndla þetta vandamál. Hann leysti það, ekki á ódýran velgjulegan hátt, og honum tókst á koma mér á óvart og ekki bara í það skiptið.

20150521_232506

Bókum er ekki hollt að týnast bak við rafmagnsþilofna, límið sem heldur þeim saman verður stökkt og þegar þær eru svo nærtækar til að henda í hurðir og þagga niður í erfiðum köttum fer illa. Nú þetta er bara kilja sem ég losa mig við eftir lesturinn, hugsaði ég með mér en að lestri loknum ákvað ég að eiga tætlurnar áfram. Það er svo margt þarna sem ég held að ég þurfi að fletta upp á síðar.

Ég var lengi að lesa þessa bók, ýmislegt fór framhjá mér og kannski misskildi ég annað. Mér tókst að stilla mig um að fletta upp á síðasta kafla til að komast að því hvort Hazel dæi í honum eða ekki. Ég þurrkaði annað slagið tárin, brosti þess á milli og hugsaði um það í lokin að ferð okkar í dauðann hefst strax við fæðingu. Er þá dauðinn aukaverkun lífsins eða lífið aukaverkun dauðans?

Um hafrun

Íslenskufræðingur, ritlistarnemi og áhugamaður um allt milli himins og jarðar - eða hér um bil.
Þessi færsla var birt undir Bækur, Lestrarátakið 2015. Bókamerkja beinan tengil.

Eitt svar við 17. The Fault in Our Stars

  1. Bakvísun: Lesátakslisti 2015 | hafrun

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s