27.6.2015 „Hugann grunar við grassins rót …“

„Hugann grunar við grassins rót, gamalt spor eftir lítinn fót“ orti Jón Helgason og þau orð hans ásækja mig í göngu dagsins.

OLYMPUS DIGITAL CAMERA

Sauðamergur, Loiseleuria procumbens

Veðrið breytir ekki út af vana sínum hér á Víknaslóðum, það er þoka og súld, þokusúld og súldarþoka. Himinn og haf, fjöllin, dalurinn og áin sveipuð sínum vætuþrungna gráma sem deyfir út allt ljós, allt myndefni verður flatt og litlaust. Meira að segja fagurbleikur sauðamergurinn sem þekur móann nær ekki að fanga athygli myndavélarinnar. Kollóttar ær eru kuldalegar í vætunni og í kvöld kroppar ein tvílemd undir eldhúsglugganum mínum, ungi tjaldbúinn er farinn suður eftir fjörðum en ég og ærnar í dalnum njótum kyrrðarinnar, árniðsins, fossahljómsins og suðsins í rafstöðinni.
Um miðjan dag léttir þokunni yfirleitt upp í miðjar hlíðar og þá gríp ég tækifærið og bleyti gönguskóna, ég forðast móa og mýrar en held mig við bílveginn til reyna ekki of mikið á kulda- og bleytuþol fóta minna.Í dag var það kirkjugangan, þó fór ég ekki alla leið, heldur staðnæmdist þar sem vegurinn beygir fyrir holtið og guðshúsið blasir við. „Loksins sá hún bóndabæ, með björt og gullin þil, hann stóð þar upp á brekkubrún við blómskreytt lækjagil“ sagði Davíð um göngu kerlingarinnar með sálina, en ég var bara með myndavél í rauðgulum bakpoka, enga sál í skjóðu og hér voru engin björt og gullin þil, aðeins hvítir kirkjuveggir og flögnuð málning á eyðibýlum. Í stað gilsins með blómunum liggur snarbrattur malarbakkinn í sjó fram. Lækurinn sem rennur eftir gömlu túnunum hefur grafið hyldjúpa skorninga í móann, svo djúpa og dimma að ekki sér til botns í þeim, vegfarandi sem leggur við hlustir heyrir bara lækinn fossa niður í djúpinu, hér er langt niður á fast berg.

Tveir eyðibæir og eitt guðshús

Víkin er grasgefinn, undirlendið mikið og góðar slægjur en sveitinni er líkt farið og Himnaríki forðum þar sem „kerlingunni brá engin bólstur engin ljá“, hér hefur ekki verið settur ljár í gras í áratugi, frammi í víkinni við hlið guðshússins standa síðust bæirnir sem búið var á í dalnum. Innar má sjá græna hóla með reglulegum hrúgum sem vitna um búsetu á tímum torfbæjanna.
Ískálanum veit ég af blöðum sem geyma sögu víkurinnar, bæjanna og fólksins sem bjó í þeim en blöðin segja ekki frá lífi þeirra, líðan, tilfinningum, hugsunum. Leið þeim vel í víkinni sinni og inni í dalnum, bölvuðu þau mýrarflákunum þegar mýrarrauðan og ískalt vatnið bullaði í fótspor þeirra og smaug ofan í sauðskinnsskóna meðan þau hlupu eftir rolluskjátunum? Langaði börnin burt þegar þau uxu úr grasi eða óskuðu þau þess að dalurinn bæri einn bæinn enn, að hann hefði rúm fyrir þau, öryggi, skjól.
Gat nokkur séð fyrir sér að á næstu, eða þar næstu öld væri sveitin í eyði, aðeins skáli sem biði göngufólki skjól, fólki sem gengi ekki hér um að líta eftir fé heldur hefði það að afþreyingu að ganga um eyðibyggðir. Renndi það grun í þriggja laga goritexfatnaðinn, þykkbotna gönguskóna, bakpokana með mat sem aðeins þurfti að hella heitu vatni út í til að fá fullkomna máltíð? Að sjórinn bryti stöðugt úr melnum svo grafir þeirra molnuðu í sjó fram, að beinin stæðu út úr mölinni, rynnu svo niður með henni nokkra faðma þangað sem sjávaraldan sópaði þeim með sér út fyrir marbakkann? Hvernig hefði þeim orðið við að sjá ærnar skreyttar eitugrænum flekkjum úr spreybrúsum á lendum og bógum?

Grænmáluð ær og hestamúgavél

Um þetta og ýmislegt fleira hugsaði ég meðan ég rölti til baka inn eftir veginum, greip með mér girðingarstaur sem lág í vegakanntinum og lagði hann milli grynninga í þveránni sem teppti leið mína. Ég nennti hvorki að leggja aftur krók á leið mína upp í hlíðina til að stika hana þurrum fótum eða fara úr sokkum og skóm til að vaða. Gangan reyndist vera 7,44 km. og ég velti enn fyrir mér þeirri órafjarlægð sem skilur að þá sem áttu hér löngu horfin spor fyrr á öldum og göngumannsins með símann og appið sem telur bæði tíma og vegalengd. Stutta stund velti ég fyri mér breytingum næstu 200 ára en allt sem mér datt í hug að gæti breyst í tæknimálum var of ótrúlegt svo ég gekk heim og tók upp það sem lítið breytist þó aldir líði – prjónana.

Um hafrun

Íslenskufræðingur, ritlistarnemi og áhugamaður um allt milli himins og jarðar - eða hér um bil.
Þessi færsla var birt undir Daglegt líf, Skálavarsla. Bókamerkja beinan tengil.

Eitt svar við 27.6.2015 „Hugann grunar við grassins rót …“

  1. Ásdís sagði:

    Mér sýnist nú á öllu að ég þurfi að prenta út allt sem ég skrifa og prófarkalesa fyrir sjálfa mig. 😦

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s