Ein klassísk ástarsaga er á lestrarátakslistanum mínum og ég ákvað að sagan um þau Sigríði og Indriða í héraðinu … væri ákaflega sígild og vel til þess fallin að verma annað sæti listans.
Ég hef lesið Pilt og stúlku einhvern tíma áður, einu sinni eða tvisvar, kannski oftar en það en í þá tíð var ég ung og saklaus og las verkið nokkuð gagnrýnislaust, velti ekki fyrir mér persónusköpun, sögusviði eða öðrum hlutum sem gera sögu að sögu.
Milli þeirra lestra og lestursins nú liðu áratugir sem markast af misþungri lífsreynslu og ferðum þvers og krus yfir jökulár og svo fór þessi síðasti lestur fram við undirleik Jökulsár í Lóni ekki langt frá þeim stað sem hún kemur undan jökli. Ég las og áin söng djúpri rámri röddu og skellti björgunum saman með þungu kæfðu banki á árbotninum. Hvernig sem ég reyndi gat ég ekki séð fyrir mér jökulsá sem væri svo lygn og hljóðlát að börn gætu setið á klettum sitt hvoru megin við hana og spjallað saman um hugðarefni sín eins og þau Indriði og Sigríður gera í sögunni því allra síst eru ár hljóðar og kyrrar í klettaþrengslum. Þetta truflaði mig núna á gamals aldri. Svona getur lífið og raunsæið farið illa með upplifun manns á bókmenntunum en látum það liggja milli hluta og kíkjum á nokkur önnur atriði.
Upphaf sögunnar er á þessa leið: „Á austanverðu Íslandi liggur hérað eitt mikið og fagurt, er …..hérað heitir;“ og síðar í sögunni segir: „Bjarni átti systur, er Björg hét; hún var ekkja og auðug vel; hún bjó í Skagafirði á bæ þeim, sem heitir V…; Hér er ekkert verið að hafa áhyggjur af örnefnum og nöfnum, höfundur skellir bara eyðu í þeirra stað, að vísu ekki nema á stöku stað, og leyfir lesanda að geta sér þess til hvaða héruð og bæir eru til umfjöllunar hverju sinni. Einhvern veginn kann ég ekki alveg við þennan stíl en átta mig á að þröngsýni minni er um að kenna. Kannski ég ætti að prófa þetta fyrirkomulag í á haustönn og sjá hvað ritlistarkennarar segja um aðferðina.
Piltur og stúlka er eftir Jón Thoroddsen og kom út 1850. Verkið telst ekki vera fyrsta íslenska skáldsagan heldur sú sem var fyrst gefin út hér og flestir sem tjá sig um hana á veraldarvefnum (já, ég gluggaði aðeins í hann) segja hana vera raunsæa, nema hvað varðar sögupersónur og söguþráð bæta sumir við. Það má taka undir þau orð, lýsingar á búskaparbasli Íslendinga í sveitum eru sennilega nokkuð raunsæjar og ég efast ekki um að lífinu í Reykjavík er rétt lýst líka. Þetta eru ágætar samtímaheimildir og nú áttað ég mig á að atriðið þar sem Guðmundur á Búrfelli klýfur diskinn sinn með matfork í brúðkaupsveislunni bendir til þess að íslenskir sveitamenn á 19. öld hafi verið vanastir því að borða með spóni úr aski og kannski tálga ketbitana úr hnefa með vasahnífnum. Söguna má vel nota sem heimild um lífið á þeim tíma sem hún var samin.
Við kynnumst sögupersónunum, Sigríði og Indriða sem börnum, þau vaxa og fella hugi saman, ill öfl reyna að stía þeim í sundur og formúlan er nokkuð regluleg. Þrjár þrautir eða hindranir þarf að yfirstíga áður en parið nær saman en allt endar vel eins og vera ber.
Þetta lukkulega par minnir mig á systkinin í sögunni um Láka jarðálf, afar góð og afar litlaus, þau eru gæskan og leiðindin uppmáluð. Þeir Gvendur og Bárður á Búrfelli eru margfallt áhugaverðari karakterar og reyndar fleiri sem eru í aukahlutverki í sögunni. Blessunin hún Gróa á Leiti hefur haft svo mikil áhrif á íslenskt samfélag að fáir vilja heita því nafni.
Piltur og stúlka er sígild íslensk ástarsaga og ætti að vera skyldulesning í skólum landisins en þá með áherslu á sögusvið og samfélagið sem kemur fram í henni frekar en söguþráðinn sjálfan.
Bakvísun: Lesátakslisti 2015 | hafrun