Halastjarnan eftir Tove Jansson er hluti af skipulögðu lestrarátaki ársins 2015 og það er ágætt að geta noað hana á tveimur vígstöðvum. Ég fann mér lesáætlun í janúar og raðaði inn á hana þá mörgum bókum sem ég ætlaði að lesa á árinu. Á listanum voru fyrirmæli um að lesa eina sögu um persónur sem ekki væru menn. Ég mundi ekki eftir neinu nema Dýrabæ Orvils og klóraði mér hressilega í höfuðið yfir því. Mig langaði nefnileg ekkert að lesa þá bók einu sinni enn. Svo kviknaði skært ljós sem sveif innan við hægri augabrúnina eins og leitarljós herþyrlu að næturlagi og í því ljósi birtist múmínfjölskyldan með allt sitt stóra samfélag ókennilegra vera sem búa, og búa ekki, í sömu sveit.
Í það sinnið greip ég Vetrarundur í Múmíndal, ákveðin í að rifja upp áratugagömul kynni sem hefur lítið verið haldið við á fullorðins árum.
Ég las um heimskan dauðan íkorna og forföður inni í skáp og vetrarævintýri Múmínsnáðans og Míu meðan aðrir sváfu og samspil þeirra tveggja og Tikka-Tú. Þegar þar var komið sögu áttaði ég mig á að ég þyrfti að lesa aðra Múmínbók og setja í það sæti listans sem var ætlað sögu um persónur sem ekki eru menn. Fyrir Vetrarævintýrið kom nefnilega aðeis eitt sæti til greina og það var sætið Fyndin bók. Í næstu ferð minni á bókasafn, og hún var ekki farin fyrr en ég mætti síðsumars á Stór-Kópavogssvæðið aftur, tók ég tvær Múmínbækur til viðbótar og nú er Halastjarnan afgreidd. Ekki í eitt skipti fyrir öll, nú á ég eftir að glugga í hana og spá og spekúlera.
Ætli það hafi annars ekki einhver skrifað fræðigrein um Múmínsögurnar, hér er efni í greiningu á persónusköpun og tengslamyndun í fjölskyldum. Staðalímyndir persónugerðar í Hemúlum, Snöbbum, Snorkum, Snúð og fleiri dýrum sem koma við sögu, ég veit reyndar ekkert hvort Snúður er dýr. Snúður er alla vega uppáhaldspersónan mín af mörgum góðum, hann er lítið fyrir að vera með „pinkla og pakka og böggla og knippi“ og lífsmottó hans er að enginn skyldi verða of háður eigum sínum.
Heimurinn er að farast, bísamrottan er með sífelldar dómdagsspár, og Múmínsnáðinn og Snabbi fara í langa og hættulega ferð að leita að geimrannsóknarstöð. Hætturnar og ævintýrin vega alltaf salt á brún ímyndunarafls barna í leik og fantasíuskrifum rithöfundar. Með því á ég við að ég er ekki viss hvort sögumaður er að segja frá ímynduðum hættum sögupersónanna eða raunverulegum hættum skáldverksins.
-
Nýlegar færslur
Nýlegar athugasemdir
Lesátakslisti 2015 |… um 10. Vetrarlokun Lesátakslisti 2015 |… um 4. Haugbúi Lesátakslisti 2015 |… um 19. Svartfugl 13. Germanía og gægj… um Lesátakslisti 2015 10. Vetrarlokun | ha… um Lesátakslisti 2015 Færslusafn
Flokkar
Tækni
Bakvísun: Lesátakslisti 2015 | hafrun