13. Germanía og gægjuþöfin

Gægjuþörf minni verður seint fullnægt en henni var þó svalað um stundarsakir af Corneliusi Tacitus, rómverskum sagnfræingi sem skrifaði ritið Germaníu á síðustu árum fyrstu aldar. Árið 98 e. Krist er oftast nefnt í því sambandi.
Með lestrinum skyggndist ég inn um gættir fortíðar því í ritinu fjallar Tacitus um Germaníu og þjóðflokkana sem byggðu landið á hans dögum. Ég sá útlínur lífshátta fornra germanskra þjóðflokka, línur sem að vísu eru mótaðar af persónulegum smekki og skoðunum höfundarins. Ritið er nefnilega áróðursrit, því var ætlað draga upp mynd af dyggðum Germana sem vörpuðu andstæðuljósi á lesti Rómverja sem voru verulega siðspilltir að mati Tacitusar (og margra annara).

Höfundur byggir verkið ekki á eigin reynslu og rannsóknum, heldur á verkum og frásögnum annarra. Ýmislegt af því sem hann segir um siði og háttu germönsku þjóðflokkana er úrelt þegar Germanía er skrifuð enda tóku samfélög Germana miklum breytingum á þeim tíma sem þeir bjuggu í nábýli við og undir stjórn Rómverja.
Margt er þó rétt og stutt af fornleifarannsóknum og öðrum samtímaritum og sumir þeirra þjóðflokka sem Tacitus nefnir hér koma hvergi fyrir í öðrum heimildum og ritið því eina heimild okkar um tilvist þeirra. Í þeim köflum sem höfundur greinir frá búsetusvæðum þjóðflokkanna er eins og hann sé að rekja sig eftir landakorti og við lesturinn fann ég hjá mér þörf til að draga fram Evrópukort og merkja inn á búsetusvæði. Við yfirborðskennda rannsóknarvinnu á veraldarvefnum komst ég svo að því að einhver góður Germaníuáhugamaður sparaði mér þá vinnu því ég fann ágætis kort sem búið var að merkja inn á hvert búsetusvæði.
Tactius er hrokafullur hástéttarmaður, viðhorf hans til Germana og samlanda sinns litast af stéttahroka hans og í verkinu kemur berlega fram að bestu og göfugust germönsku þjóðflokkarnir vour þeir sem höfðu orðið fyrir mestum áhrifum af rómverska heimsveldinu en án þess þó að temja sér lesti og siðspillingu Rómverjanna. Eflaust er hér ýmislegt afbakað, á annað ekki minnst og það sem dregið er fram er auðvitað það sem utanaðkomandi kemur fyrst auga í, þ.e. það sem er ólíkt með hans heimamönnum og heimkynnum og hinum framandi þjóðum. Þannig er flestum farið sem skoða ókunnug lönd og þjóðir, líka þó verið sé að vinna úr efni frá öðrum eins og Tactius gerði. Verkið er þess vegna aðeins gluggi sem hleypir í gegn daufu endurskini fornarar menningar Germana og svalrar þó gægjuþörf minni upp að vissu marki. Gefur mér hugmyndir til að vinna úr ef og þegar ég held áfram að velta mér upp úr sögu þeirra persóna sem hafa hreiðrað um sig í hugarfylgsnum mínum undanfarið.
Rökrétt næsta skref er þá að glugga í Gallastríði eftir Júlíus Cesar og prenta úr kortið góða til að kynna sér þessa „forfeður“ okkar betur.

Við þetta er svo aðeins því að bæta að áður en ég kom þessum pistli í loftið barst mér annað mikið grundvallar riti sem er fréttabréf Ástatrúarfélagsins. Í því er fróðlegur pistill alsherjargoða sem fjallar um þá sérstöku manngerð sem hann kallar hoffífl en þessi fíflategund lítur á Germaníu sem mikið höfuðrit um forna siði og trúarbrögð og vitna safnaðarmeðlimir gjarnan í þá frásögn að Germanir hafi hengt svikara og liðhlaupa í trjám en kæft skræfur, ragmenni og fúllífismenn í for og mýrarfenjum. Germanir áttu reyndar ekki annara kosta völ en nota forarpytti og mýrardrullu því landið var lítið annað skv. lýsingum Tacitusar. Þeir höfðu engan drekkingarhylurinn með köldu og kristaltæru vatni eins og íslenskir sanntrúaðir miðaldamenn höfðu í Öxará á Þingvöllum.
Hoffíflin hafa víst haft á orði að mæta til Íslands og vígja væntanlega hofbyggingu Ásatrúarfélagsins með sínu sanntrúaða lagi og bæta fyrir helgispjöll homma- og lespíu elskandi Íslendinga. Af þeim heitstrenginum er nafnið dregið og vísar einnig til hinna ýmsu fíflakenninga miðalda. Ég get ekki varist þeirri hugmynd að þessir hugsjónamenn væru best geymdir í þeim mýrarfenjum fornalda sem þeir dá svo mjög.

Um hafrun

Íslenskufræðingur, ritlistarnemi og áhugamaður um allt milli himins og jarðar - eða hér um bil.
Þessi færsla var birt undir Bækur, Lestrarátakið 2015. Bókamerkja beinan tengil.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s