19. Svartfugl

Hann situr undir lágri súðinni í myrkvaðri baðstofunni, úti er landið baðað blárri birtu tunglsins sem sendir kaldan geisla inn um lítinn stafnglugga. Það lýsir upp flöt af rykugum hrörlegum gólfborðum og föl birtan beinir athygli hans að sauðsvörtum hnoðra undir rúminu andspænis. Húsaskúm hugsar hann en þessi dökka slitra fangar augnaráð hans og neitar að sleppa því frjálsu. Bak hans bognar enn þegar hann teygir sig fram og tekur upp prjónaðan barnssokk.

Og nú byrja þau að tínast inn í baðstofuna til hans, hún Guðrún sem hann óskaði svo lengi að yfirgæfi þessa jarðvist og hyrfi yfir í aldingarða drottins. Jón með gapandi sárið eftir höfuðhöggið; höldarnir hans standa hönd í hönd í skugganum við stigaskörina og horfa til hans tómum augum; táturnar næturkaldar eftir frostið á ísnum og hann Gísli hans enn með þvermóðskuna meitlaða í svipinn. Hann Gísli vildi bara komast heim á Sjöundá, frekar fraus hann í hel í vökinni og táturnar með honum á ísnum en gefa sig að vondu fólki.

Síðust kemur hún konan sem hann vildi leggja allt í sölurnar til að fá. Til að eiga með henni hamingju í harðbýlu landi út við hafið, en sú hamingja fékkst ekki keypt, hversu dýru verði sem hann hafði reynt að kaupa hana. Þessi streymandi ilur sem bylgjaðist um brjóst hans eins og aldan við Skor þegar hann leit hana augum, hann var horfinn og kæmi aldrei aftur. Þegar þau eru öll komin stendur hann upp og gengur út, niður um loftskörina og niður á troðið moldargólfið í eldhúsinu undir baðstofunni. Kannski hangir trosnað hrosshársreipi í hlöðnum veggnum, það blaktir í næturgolunni sem læðir sér inn þegar hann opnar dyrnar í síðasta sinn og gengur út til að mæta örlögum sínum.

Svartfugl eftir Gunnar Gunnarsson er sagan sem er byggð á sönnum atburðum. Hana hef ég lesið áður og ætla ekki að þvertaka fyrir að ég eigi einhvern tíma eftir að lesa hana aftur.
„ójá ennþá rata ég um bæinn. Sat í baðstofunni stundarkorn – í tunglsljósinu [. . .] Sat þar þangað til mér fannst að fleiri væru mættir.“ Segir Bjarni undir lokin og myndin af manni sitjandi í myrkri baðstofu þar til hinir látnu eru komnir á kreik í nóttinni settist að í huga mér og ég spurði „Hverjir mættu þér þarna í myrkrinu Bjarni?“ Þess vegna byrjar þessi færsla eins og hún byrjar. Og við það er engu að bæta nema kannski því að geðugustu persónur sögunnar eru glæpamennirnir Bjarni og Steinunn.

Um hafrun

Íslenskufræðingur, ritlistarnemi og áhugamaður um allt milli himins og jarðar - eða hér um bil.
Þessi færsla var birt undir Bækur, Lestrarátakið 2015. Bókamerkja beinan tengil.

Eitt svar við 19. Svartfugl

  1. Bakvísun: Lesátakslisti 2015 | hafrun

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s