Sem ég sit þar í þokusuddanum, og í hug mér rennur grunur um snæviþakin fjöllin sem umlykja dalinn á þessu kalda sumri, velti ég því fyrir mér hvar ég eigi að að byrja. Næri mig á hálfvolgri linsubaunakássu með rauðgulum kyrnóttum þykkildum sem stappast illa saman við kássuna og illa soðiðn hýðishrísgrjón bresta undir tönn.
Kássan veldur mér ógleði, tilraunir til að hita hana bæta ekki úr skák og ég sný mér að kaffibrúasanum sem reynist illa við að halda hita á kaffinu. Það er moðvolgt og suðusúkkulaðið stendur heldur ekki undir væntingum.
Kaffið má þó hita upp svo dugi, kássuna þarf ég ekki að borða frekar en ég vil og súkkulaðið bráðnar i munni þegar kaffið er orðið vel heitt. Snarkið í logandi eldiviðnum í kamínunni gefur fyrrheit um notalega stund og úti drýpur íslenskt regn af upsum hússins. Út í það veður þarf ég ekki að fara frekar en ég vil
Ég sit ekki í útlegð úti í Gullbjarnarey, þarf ekki að staulast út í vetrarmyrkrið til að berja úr gaddfrosnu næturgagni, treina mér söl og bein í súpur, skafa súrt smjör úr tunnu og láta hálfa mjölskeppu duga allan veturinn. Ég sit bara og reyni að að meðtaka áhrifin af lestri Rökkurbýsna jafnframt því að rökstyðja fyrir sjálfri mér hverst vegna bók eftir Sjón var valin sem „bók eftir höfund sem ég dái“
Góða stund eftir að lestrinum líkur er ég undir áhrifum af orðfæri sagnamannsins. Hér ríkir margorður miðaldastíll sem höfundi tekst bærilega að temja sér og gera sannfærandi til að mynda með því að byrja setningar á sagnorðum. „Greip Láfi þá um býfurnar..“ í stað þess að Láfi grípi um býfurnar og kvikt mannshræið ólmast ekki undir særingum heldur „hið kvika mannshræ“
Sagan er sem sagt nokkuð sannfærandi frásögn miðaldamannsins Jónarar lærða. Sálarlífið, hjátrúin, bábyljurnar og miskunarleysi mannlífsins skila sé og ég velti fyrir mér hugarheimi þeirra sem trúðu því að loftandar smokruðu sér ofan í gapandi mannskepnurnar og óskasteinar flytu upp í vötnum landsins við ákveðin tækifæri.
Ég leiddi það hjá mér að hæð Adams var í metrum talin þó lengdareiningin alin væri notuð annar staðar (hvenær var annars metratalið tekið upp?) Ég hugsaði um metnaðinn, þrána eftir frægð og upphefð sem dró Jónas norður á Snjáfjallaströnd að kveða niður draug og hver sé munurinn á þeirri þörf, og kjánalegri draugatrúnni, og frægðarþörf nútímamannsins með kjánalegri trú á andlega leiðsögn samfélagsmiðla. Þessi þörf sem tjáir látlaust, „Sjá, ég fæ athygli, þess vegna er ég.“
Hvers vegna Rökkurbýsnir eftir Sjón? Var það kápan sem fangaði athygli mína þar sem hún lá á útsöluborði eða var það titillinn? Sennilega hvorutveggja. Ég er hrifin af titlinum sem vísar í rökkur í margvíslegum skilningi og þær býsnir sem geta brotist um í hálfbirtunni. Rökkur í siðmenningu, rökkur í sálarkyrnunni, rökkur í þekkingu mannshugans, rökkur í mannúð og manngæsku
Beinagreindin á bókarkápu situr álút á steini hefur lagt vinstri fót yfir hné hægri fótar, heldur báðum höndum um ristarbeinin og horfir rannsakandi, athugulum holum augntóftum undir ilina. Kannski er hún að telja beinin í mannslíkamanum. Skoða af nákvæmni samtengingar þeirra af viðlíka áhuga og Jónas lærði hafði á öllu sköpulagi manna og dýra. Mig minnir hún þó mest á svæðanuddara sem meðhöndlar sjálfan sig og einbeitir sér að þrýstipunktum undir tábergi sínu. Kannski er þó þessi einbeitta beinagrind frekar að hugsa um sigg eða líkþorn sem angraði hana í lifanda lífi eða draga flís sem rakst inn í kjúkuna þegar hún spyrnti sér upp af kistubotninum á leið sinni upp á yfirborðið.
Bók eftir Sjón átti að vera á listanum sem bók eftir höfund em ég dái og hvers vegna varð hann fyrir valinu? Sennilega er það vegna þess að nýlega endurskoðaði ég hugmyndir mínar um höfundinn. Ég hafði einhvern tíma myndað mér yfirborðskennda hugmynd um háfleygan, óskiljanlegan moðhaus sem skrifað samhengislaust bull, svo las ég Mánastein og svo las ég Skugga-Baldur. Þá vildi svo vel til að ég var nýbúin að endurmeta gildi skaáldskapar (þ.e. prósa) og taldi ekki lengur að skáldskapur þyrfti að vera línuleg frásögn sem þættist vera sannleikur.
Sjón, vegna þess að það er ekki hægt annað en að dá höfund Mánasteins og höfund sem getur skrifað sjálfan sig inn í hvert verk sitt, líka sem sendling – en svo skipti ég um skoðun, nei ekki á Sjón heldur á úthlutuðu sæti Rökkurbýsna. Þessi bók var keypt vegna beinagrindarinnar, það að hún er eftir Sjón var bara uppbót, hún fer þess vegna í 24. sæti leslistans, bók sem er valin út á kápuna.
-
Nýlegar færslur
Nýlegar athugasemdir
Lesátakslisti 2015 |… um 10. Vetrarlokun Lesátakslisti 2015 |… um 4. Haugbúi Lesátakslisti 2015 |… um 19. Svartfugl 13. Germanía og gægj… um Lesátakslisti 2015 10. Vetrarlokun | ha… um Lesátakslisti 2015 Færslusafn
Flokkar
Tækni
Bakvísun: Lesátakslisti 2015 | hafrun